Vinir Hjálparstarfs kirkjunnar komu fyrst saman í Grensáskirkju mánudaginn 31. október 2022. Þar gafst fólki kostur á að styrkja hjálparstarfið, snæða og njóta í góðum félagsskap. Þá voru dýrindis íslenskar kjötbollur á boðstólum með kartöflum, grænum baunum, rauðkáli og brúnni sósu, ásamt rabbarbarasultu. Þessi hittingur áhugafólks um starf Hjálparstarfsins hefur fest sig í sessi.
Hugmyndin að baki samverunum er að fólk geti hist stuttlega í hádeginu, borðað saman og rætt málefni Hjálparstarfsins og þá ekki síst hvernig hver og einn og hópurinn í heild sinni geti stutt við starfið. Hugmyndin kviknaði hjá séra Bjarna Þór Bjarnasyni og með honum í undirbúningshópnum voru þeir Halldór Kristinn Pedersen og Erik Pálsson, auk starfsfólks Hjálparstarfs kirkjunnar og presta og starfsfólks Grensáskirkju.
Yfir hádegisverði fyrsta fundar kynnti félagsráðgjafi þá aðstoð sem Hjálparstarfið býður upp á um land allt fyrir jólin. Var þá einnig rætt um nýjar leiðir til stuðnings Hjálparstarfinu. Í eldhúsinu voru þau Bent Pedersen og Kolbrún Guðjónsdóttir, sem önnuðust eldamennskuna í sjálfboðaliðavinnu. Síðar kom Kristín Hraundal, þá nýr kirkjuvörður Grensáskirkju, einnig að matseld fyrir fundargesti.
Snætt og margt rætt
Til þessa hafa Vinir Hjálparstarfsins komið saman í átta skipti og fjórir fundir til viðbótar hafa verið settir á dagskrá á nýju ári. Yfir snæðingi hefur margt borið á góma. Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, sagði t.d. frá nýju þróunarsamvinnuverkefni Hjálparstarfsins í Malaví en þegar hópurinn kom saman var hann nýkominn heim úr vinnuferð til landsins. Rósa Björg Brynjarsdóttir umsjónarkona Skjólsins sagði stuttlega frá starfinu í Skjólinu opnu húsi fyrir konur sem glíma við heimilisleysi. Sagt hefur verið frá verkefnum Hjálparstarfsins í Úganda og Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi ræddi um stöðu þurfandi fólks í samfélaginu og stöðunni á Íslandi í dag, eins og þær blasa við henni. Þá var á síðasta fundi fjallað um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og hjálparstarf ACT Alliance (Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna) í því samhengi.
Fjórir fundir komnir á dagskrá
Vinir Hjálparstarfs kirkjunnar hittast ávallt í safnaðarheimili Grensáskirkju síðasta mánudag hvers mánaðar yfir vetrartímann. Öll sem áhuga hafa á starfinu og vilja leggja því lið eru hjartanlega velkomin, en tilkynna þarf þátttöku á netfangið help@help.is eða í síma 528 4400 fyrir kl. 9:00 fimmtudaginn fyrir uppgefinn fundartíma komandi mánudags. Vinir Hjálparstarfsins koma saman fjórum sinnum nú á vorönn 2024, eða dagana 29. janúar, 26. febrúar, 25. mars og 29. apríl.