Hjálparstarf kirkjunnar heldur áfram neyðaraðstoð við fólk sem býr við fátækt með  inneignarkortum fyrir matvöru og með milligöngu um að leysa út lyf.

Fólk sem er í viðkvæmri stöðu vegna kórónuveirunnar og Covid-19 er bent á að hafa samband um aðstoð í síma 528 4400 klukkan 10:00 – 15:30 virka daga. Fólk sem er með Arioninneignarkort Hjálparstarfsins fyrir matvöru nú þegar getur fyllt út umsókn á help.is. Félagsráðgjafar okkar hafa samband um aðstoð í framhaldinu.

Í forvarnarskyni hefur Hjálparstarfið ákveðið að fatamiðstöð verði ekki opin almenningi meðan neyðarstig almannavarna vegna kórónuveirunnar og COVID-19 varir. Á sama tíma höfum við ekki pláss til að taka við fatnaði heldur.

„Við viljum auka þjónustu okkar símleiðis og á netinu og takmarka samgang á skrifstofu,“ segir Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri. „Við biðjum fólk því að byrja á því að hringja til okkar í síma 528 4400 og félagsráðgjafar vinna málið áfram. Við munum að sjálfsögðu leitast við að aðlaga starfið og þjónustuna eftir því sem aðstæður breytast í samfélaginu.“

Á síðasta starfsári veitti Hjálparstarf kirkjunnar 1.473 fjölskyldum efnislega aðstoð með inneignarkortum fyrir matvöru. Alls nutu 367 einstaklingar aðstoðar við að leysa út lyfin sín og 495 einstaklingar og fjölskyldur komu til okkar eftir notuðum fatnaði. Þá er ótalinn sá stuðningur sem börn og unglingar hafa notið til að einangrast ekki félagslega sökum fátæktar og stuðningur við ungmenni svo þau geti stundað nám óháð efnahag.

Styrkja