Stjórn Frímúrarasjóðsins, menningar- og mannúðarsjóðs Frímúrarareglunnar á Íslandi, hefur veitt Hjálparstarfi kirkjunnar veglegan styrk.
Þeir Allan Vagn Magnússon, formaður, og Eiríkur Finnur Greipsson, ritari, komu við á skrifstofu Hjálparstarfsins og afhentu Bjarna Gíslasyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins, styrkinn fyrir hönd stjórnar en hann er að upphæð tvær milljónir króna.
„Hjálparstarfið hefur margoft áður fengið rausnarlegan stuðning frá Frímúrurum og við metum þennan frábæra stuðning mikils, hann gerir okkur kleift að veita aðstoð sem sannarlega er þörf á,” segir Bjarni af þessu tilefni.
Frímúrarareglan á Íslandi hefur veitt starfi Hjálparstarfsins liðsinni sitt mörg undanfarin ár en á afhendingarskjali segir:
„Er það einlæg von okkar að styrkurinn komi Hjálparstarfi kirkjunnar að gagni við hið mikilvæga mannúðar- og hjálparstarf innanlands, sem unnið er á vegum kirkjunnar,“ segir þar.
Hér má lesa allt um innanlandsstarf Hjálparstarfs kirkjunnar.