Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, veitti í gær styrki til verkefna á sviði félags- og velferðarmála. Veittir voru 41 styrkir og nam heildarfjárhæðin ríflega 200 milljónum króna.
Verkefni Hjálparstarfsins – Stattu með sjálfri þér – Virkni til farsældar hlaut 9,8 milljóna króna verkefnastyrk. Stattu með sjálfri þér er heiti á verkefni með konum sem búa við örorku og eru með börn á framfæri en stór hópur kvenna í þeirri stöðu hefur í mörg undanfarin ár leitað til Hjálparstarfsins um efnislega aðstoð.
Eins fékk Skjólið – opið hús fyrir konur fimm milljóna króna verkefnastyrk en Hjálparstarfið rekur úrræðið með tilstyrk þjóðkirkjunnar. Skjólið er fyrir konur sem búa við heimilisleysi, eru nýkomnar í búsetuúrræði eftir heimilisleysi eða búa við ótryggar aðstæður.
Styrkúthlutun fór fram við hátíðlega athöfn á Reykjavík Natura. Hefð hefur skapast fyrir því að valdir styrkþegar kynni verkefnin sem þeir hljóta styrk fyrir. Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins, þær Lovísa Mjöll Kristjánsdóttir og Júlía Margrét Rúnarsdóttir, kynntu verkefni Hjálparstarfsins fyrir fundarmönnum.
Fjölbreytt starf
Einstæðar mæður sem búa við örorku hafa lýst stöðu sinni svo fyrir félagsráðgjöfum Hjálparstarfsins að fá úrræði standi þeim til boða og að þannig minnki virkni þeirra enn frekar. Minni virkni auki vanlíðan og félagslega einangrun og að með tímanum verði erfitt að ná sér upp úr þeim vítahring. Markmið með valdeflingarverkefninu er því þríþætt: Að konurnar fái svigrúm til að bæta sjálfsmynd sína og auka trú á eigin getu; að þær geti styrkt félagslegt tengslanet sitt og komið í veg fyrir félagslega einangrun; að þær fái tækifæri til að eflast í foreldrahlutverkinu.
Þátttakendur skuldbinda sig til þess að taka virkan þátt í einstaklingsviðtölum og hópvinnu og þurfa að hafa vilja til að breyta aðstæðum sínum. Stuðningur er frá félagsráðgjafa í gegnum tímabilið.
Dagskrá verkefnisins er fjölþætt og tekið er mið af óskum og þörfum þátttakenda sem eru nú 10 talsins á aldrinum 29 til 46 ára. Þær er búsettar í Reykjavík, Mosfellsbæ, Hafnarfirði og Njarðvík. Árangur er metinn út frá hverjum þátttakenda fyrir sig sem kemur fram í aukinni vellíðan þeirra og fjölskyldna. Gerð er könnun í lok fyrra og seinna árs.
Verkefnið er til tveggja ára og hópurinn sem nú vinnur saman er sá fjórði í röðinni síðan verkefnið hófst árið 2016. Fjórtán konur luku þátttöku í verkefninu sem hófst í september 2020 og lauk í maí 2022. Fjórði hópurinn hóf þátttöku í september síðastliðnum.