Í Úganda er Hjálparstarf kirkjunnar í samstarfi við samtökin Ugandan Youth Development Link, UYDEL, sem hafa áratuga reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfum höfuðborgarinnar Kampala og eru leiðandi í baráttunni gegn mansali og barnaþrælkun í landinu.
Í höfuðborginni reka samtökin smiðjur fyrir börn og ungmenni á aldrinum 13-24 ára og fjármagnar Hjálparstarf kirkjunnar starfið í þremur þeirra. Í smiðjunum þremur stunda um 500 unglingar nám ár hvert. Markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem það getur nýtt til að sjá sér farborða, að það taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina og að þau séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu.
Í smiðjunum geta unglingarnir valið sér ýmis svið og öðlast nægilega færni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, saumaskap og sápugerð. Einnig eru á dagskrá dans, leik- og sönglist og íþróttir. Mikið er lagt upp úr því að styrkja sjálfsmynd unglinganna sem koma úr ömurlegum aðstæðum í fátækrahverfunum.

Fallega fléttað hár má sjá hvert sem litið er í Kampala. Að læra að flétta er því eftirsótt. Hér eru nokkrar stúlkur að stíga sín fyrstu skref við að læra hárgreiðslu.

Rafvirkjun er vinsæl grein og þá ekki síst hjá strákunum sem sækja smiðjurnar í Kampala.

Í menntasmiðjunum er mikil áhersla lögð á að unga fólkið geti lifað sjálfstæðu lífi og matseld er því kennd fyrir þau sem vilja.

Klæðskurður og saumar vekur athygli margra þeirra sem sækja smiðjurnar – þessar stúlkur eru stoltar af flíkunum sem þær eru að hanna og sauma.