Eitt af mikilvægustu verkefnum Hjálparstarfsins ár hvert er að miðla fallegum jólagjöfum til barna sem búa við fátækt. Þessi jólin, eins og öll fyrri jól, skipta gjafirnar þúsundum sem starfsmenn og sjálfboðaliðar hafa tekið á móti og miðlað áfram til stórs hóps barna.
Gjafirnar tryggja að undir jólatré í stofu fjölmargra fjölskyldna verður glaðningur sem ekki hefði verið þar að finna að öðrum kosti. Ef nákvæmni er gætt þá voru þær tæplega 3.200 talsins sem verða opnaðar á aðfangadag af tæplega 800 börnum sem búa við fátækt. Forráðamenn barnanna geta valið um tvær til fjórar gjafir fyrir hvert barn; leikfang, bók, spil eða hlýjan fatnað. Því til viðbótar geta margir valið smærri gjafir sem henta vel til þess að setja í skóinn í aðdraganda jóla, þó þær séu ekki taldar með hér.
Styrktarsamfélag Hjálparstarfsins er víðfemt og gjafavara berst til stofnunarinnar jafnt og þétt yfir árið, þó flestar gjafirnar berist Hjálparstarfinu á aðventunni. Þær berast frá einstaklingum, hópum sem koma saman í félagsstarfi hvers konar, fyrirtækjum og mörgum fleirum. Vinna við undirbúning jólagjafaúthlutunar hefst mörgum vikum fyrir jól og að því starfi kemur stór hópur sjálfboðaliða í samstarfi við starfsmenn Hjálparstarfsins.
Hér má lesa allt um innanlandsstarf Hjálparstarfs kirkjunnar.
Vilt þú styrkja hjálparstarfið? Með því að gerast Hjálparliði hjálpar þú fólki sem býr við fátækt á Íslandi og í fátækustu samfélögum heims.