Hjálparstarfi kirkjunnar hefur borist liðsauki en Svavar Hávarðsson hefur hafið störf sem fræðslu- og upplýsingafulltrúi Hjálparstarfsins. Svavar starfaði áður sem blaðamaður og ritstjóri til fjölda ára.
Svavar mun meðal annars hafa með höndum ritstjórn og útgáfu fréttablaðsins Margt smátt…, upplýsingamiðlun og samskipti við fjölmiðla, umsjón með fræðslu og skipulagningu viðburða. Hann tekur við keflinu af Kristínu Ólafsdóttur sem mun framvegis gegna starfi verkefnastjóra erlendra verkefna hjá Hjálparstarfinu.
Á rætur fyrir austan
Svavar er Austfirðingur en hefur verið búsettur í Reykjavík lengst af. Rætur hans liggja til Seyðisfjarðar en enn frekar til Stöðvarfjarðar þar sem hann ólst upp. Hann starfaði sem sjómaður lengi vel en ákvað að drífa sig í sagnfræðinám þegar blaðamennskan kallaði. Starfaði þó um tíma sem sjálfstætt starfandi fræðimaður áður en blaðamennskan tók við.
Svavar lýsir sér sem fjölskyldumanni og dellukarli. Grundfirðingurinn Hugrún Dögg Sigurðardóttir er konan hans og eiga þau saman soninn Atla. Svavar á einnig son af fyrra sambandi, hann Hákon sem stundar nám við Háskólann á Akureyri. Stangveiði hefur fylgt Svavari alla tíð og er hans helsta áhugamál. Áhugi hans á útivist fann sér líka farveg í steinasöfnun og plokki en hann og Atli sonur hans hafa um nokkura ára skeið tínt rusl úr náttúrunni sem þeim þykir afar gefandi.
Sem blaðamaður í innlendum fréttum á Fréttablaðinu sinnti Svavar skrifum um fjölbreytt efni. Hann hlaut verðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku árið 2011 fyrir fréttaflutning af mengun frá sorpbrennslum. Svavar söðlaði um árið 2017 og hefur starfað sem ritstjóri Fiskifrétta undanfarin ár.
Svavar er með BA próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og hefur sinnt ýmsum félagsstörfum; sat meðal annars í stjórn Sagnfræðingafélags Íslands og í ritnefnd Stangaveiðifélags Reykjavíkur.
Netfang Svavars er Svavar@help.is