Mannúðaraðstoð í Eþíópíu vegna stríðsátaka
Hjálparstarf kirkjunnar sendi í lok mars 2021 rúmlega tuttugu og eina milljón króna til brýnnar mannúðaraðstoðar í Tigray-fylki í norðanverðri Eþíópíu og sömu upphæð í lok janúar 2022 til mannúðaraðstoðar í Amharafylki sem er nágrannafylki Tigray.
Átök geisuðu í nyrstu fylkjum Eþíópíu frá því í nóvember 2020 og þangað til vopnahlé var undiritað í desember í fyrra. Að mati Sameinuðu þjóðanna hefur líf 5,5 milljóna íbúa hangið á bláþræði vegna matarskorts. Tugþúsundir íbúa hafa flúið yfir til Súdan og átökin hafa breiðst út til fylkjanna Amhara og Afar þar sem 450 þúsund íbúar eru á hrakhólum.
Hjálparstarf Lúterska heimssambandsins (Lutheran World Federation / World Service) er framkvæmdaraðili á vettvangi og vinnur náið með stjórnvöldum og öðrum mannúðarsamtökum til að tryggja dreifingu hjálpargagna. Konur og börn yngri en fimm ára sem hafa flúið heimkynni eru í miklum meira hluta þeirra sem nú hafast við í yfirfullum bráðabirgðabúðum og óttast hjálparsamtök mikinn matarskort á svæðinu og þörfin fyrir aðstoð er brýn.
Hjálparstarfið á vettvangi snýst um að vernda líf og lífsafkomu fólks, bæta fæðuöryggi með því að útvega korn og verkfæri til landbúnaðar, úthluta búfé, tryggja fólki húsaskjól, og veita beinan óskilyrtan fjárstuðning. Einnig er unnið að því að bæta aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu, tryggja fræðslu um smitvarnir gegn COVID-19 ásamt því að dreifa sóttvarnarbúnaði til einstaklinga, svo eitthvað sé nefnt. Kórónuveirufaraldurinn hefur torveldað allt hjálparstarf en starfsfólk Lútherska heimssambandsins leggur ríka áherslu á að útvega fólkinu sóttvarnarbúnað og fræða um forvarnir.
Mannúðaraðstoð í Eþíópíu vegna þurrka
Átök, þurrkar og fátækt herja á Eþíópíu og yfir 24 milljónir íbúa þurfa aðstoð eingöngu vegna þurrkanna. Í júní árið 2022 sendi ACT Alliance út neyðarbeiðni vegna þurrka í þremur ríkjum; Sómalíu, Keníu og Eþíópíu. Í kjölfar hennar sendi Hjálparstarf kirkjunnar tæplega 22 milljóna króna framlag til mannúðaraðstoðarinnar og nam styrkur utanríkisráðuneytisins til verkefnisins 20 milljónum króna. Framlag Íslendinga var eyrnamerkt mannúðaraðstoð Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins, LWF/DWS í Oromía- og Sómalí-fylkjum í Eþíópíu. Í Sómalífylki nær mannúðaraðstoð LWF meðal annars til Kebrebeyah-héraðs en þar er stærsta verkefni Hjálparstarfsins í þróunarsamvinnu.
Lútherska heimssambandið hefur starfað í Eþíópíu frá árinu 1971 og veitt þar bæði mannúðaraðstoð og starfað í þróunarsamvinnu. LWF hefur m.a. aukið aðgengi fólks að vatni og hreinlætisaðstöðu og útvegað fólki húsaskjól, mat, búsáhöld og reiðufé til nauðþurfta. Fólkið í fylkjunum tveimur býr við alvarlegan fæðuskort og búfénaðurinn fellur úr hor vegna þurrkanna. Aðgengi að vatni er afar takmarkað sem leiðir til þess að fólkið yfirgefur heimkynni sín og fer á vergang. Heilsufar versnar og börnin sækja ekki skóla.
Efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins og innrás Rússa í Úkraínu hafa gert slæmt ástand verra og ársverðbólga í landinu mælist í tugum prósenta. Eldsneytisskortur, uppskerubrestur, engisprettufaraldur og útbreiðsla kóleru hrjá fólkið sem getur sér litlar bjargir veitt.
Verkefninu sem Hjálparstarfið á aðild að er ætlað að ná til 72.000 íbúa landsins, bæði heimafólks og fólks á vergangi. Þessum áfanga skal náð á þeim átján mánuðum sem verkefnið stendur yfir, eða frá júnímánuði 2022 til ársloka 2023. Markmið verkefnisins eru að bjarga mannslífum og koma í veg fyrir hungursneyð og alvarlega vannæringu fólksins sem býr á verstu þurrkasvæðunum. Þá verður veittur sálfélagslegur stuðningur og stuðlað að viðnámsþrótti samfélaganna gegn afleiðingum loftslagsbreytinga. Stærstu kostnaðarliðir verkefnisins eru að útvega vatn og hreinlætisaðstöðu og að tryggja fæðuöryggi fólksins.
„Þetta eru einir mestu þurrkar sem sögur fara af,“ sagði Sophie Gebreyes framkvæmdastjóri LWF sem heimsótti Ísland í september síðastliðnum, og vísaði til ný endurskoðaðrar viðbragðsáætlunar samtakanna við þurrkum, en heimsókn hennar til Íslands var sérstaklega hugsuð til að vekja athygli á grafalvarlegu ástandi í landinu og brýnni þörf fyrir aðstoð alþjóðasamfélagsins.
Hvað starfssvæði Hjálparstarfsins í Sómalí-fylki varðar þá er um verstu þurrka að ræða í fjóra áratugi sem hafa leitt til þess að 600.000 manns hafa bæst við tölu þeirra sem voru þegar á vergangi innan svæðisins og 3,5 milljónir manna sem þurfa aðstoð við að fæða sig. Búsmali fólksins á svæðinu hefur hríðfallið vegna þurrka og sjúkdóma og er þá sama hvort um geitur, sauðfé eða nautgripi er að ræða.
Samkvæmt Eþíópísku heilbrigðisstofnuninni (EPI) hefur kólera brotist út á tveimur aðskyldum svæðum í Sómalí-fylki og er um hliðarverkun þurrkanna að ræða. Þá hafa bændafjölskyldur gripið til þess örþrifaráðs að leggja sér útsæði sitt til munns. Þegar allt er samantekið meta stjórnvöld og hjálparsamtök stöðuna svo að vegna þrálátra þurrka, mögulega að stórum hluta vegna loftslagsbreytinga, sé staða íbúa á stórum svæðum innan Eþíópíu afar ótrygg.
Árið 2022 sendi Hjálparstarf kirkjunnar tæpar 33 milljónir króna til systursamtaka í Eþíópíu vegna verkefnisins. Áður nefnt 22 milljóna króna framlag í júlí 2022 og auk þess tæplega ellefu milljóna króna framlag í desember. Þetta var mögulegt með tilstyrk utanríkisráðuneytisins sem lagði til 30 milljónir króna.
Rammasamningar Hjálparstarfs kirkjunnar og utanríkisráðuneytisins voru undirritaðir árið 2022 en þeir hverfast um stuðning ráðuneytisins við verkefni Hjálparstarfsins á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Samkvæmt samningunum leggur ráðuneytið til framlag sem nemur stórum hluta af kostnaði við skilgreind verkefni.