Hjálparstarf kirkjunnar veitir mannúðaraðstoð í samstarfi við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins, LWF DWS, og systursamtök og -stofnanir í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance, sem samhæfir mannúðaraðstoð með hjálparstofnunum Sameinuðu þjóðanna og starfar eftir ströngustu stöðlum um faglegt hjálparstarf.

Rammasamningar Hjálparstarfs kirkjunnar og utanríkisráðuneytisins voru undirritaðir árið 2022 en þeir hverfast um stuðning ráðuneytisins við verkefni Hjálparstarfsins á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Samkvæmt samningunum leggur ráðuneytið til framlag sem nemur stórum hluta af kostnaði við skilgreind verkefni.

Í janúar 2022 sendi Hjálparstarf kirkjunnar 21,2 milljónir króna til mannúðaraðstoðar í Afganistan. Framlagið er að meðtöldum 20 milljóna króna styrk utanríkisráðuneytisins og rennur það til verkefna Christian Aid, systurstofnunar Hjálparstarfsins í Alþjóðlegu hjálparstarf kirkna, ACT Alliance.

Eftir að hafa verið frá völdum í 20 ár komust Talibana aftur til valda í Afganistan þegar bandarískt herlið yfirgaf landið í ágúst 2021. Segja má að um leið hafi hafist hnignun og afturför í landinu ekki hvað síst hvað varðar mannréttindi og stöðu kvenna.

Afganska þjóðin stendur nú frammi fyrir mikilli neyð en samkvæmt Sameinuðu þjóðunum fá 95% af afgönsku þjóðinni ekki nóg að borða. Fyrir valdatöku talibana var efnahagsstaðan í landinu mjög slæm vegna þurrka og afleiðinga kórónuveirufaraldursins en nú fer sárafátækt hratt vaxandi og mikill skortur er á matvælum.

Alþjóðastofnanir segja mjög mikilvægt að viðhalda flæði fjármagns og mannúðaraðstoðar til Afganistan til að vernda það sem unnist hefur í þróunarstarfi undanfarna áratugi og til að koma í veg fyrir algjört hrun í landinu.

Markmið með verkefni Christian Aid eru fyrst og fremst að tryggja fólki sem býr við sárustu fátæktina aukið fæðuöryggi, húsaskjól og aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu. Áætlað er að verkefnið hafi náð til samtals 63 þúsund einstaklinga í lok árs 2022.

Mannúðaraðstoð í Eþíópíu vegna stríðsátaka

Hjálparstarf kirkjunnar sendi í lok mars 2021 rúmlega tuttugu og eina milljón króna til brýnnar mannúðaraðstoðar í Tigray-fylki í norðanverðri Eþíópíu og sömu upphæð í lok janúar 2022 til mannúðaraðstoðar í Amharafylki sem er nágrannafylki Tigray.

Átök geisuðu í nyrstu fylkjum Eþíópíu frá því í nóvember 2020 og þangað til vopnahlé var undiritað í desember í fyrra. Að mati Sameinuðu þjóðanna hefur líf 5,5 milljóna íbúa hangið á bláþræði vegna matarskorts. Tugþúsundir íbúa hafa flúið yfir til Súdan og átökin hafa breiðst út til fylkjanna Amhara og Afar þar sem 450 þúsund íbúar eru á hrakhólum.

Hjálparstarf Lúterska heimssambandsins (Lutheran World Federation / World Service) er framkvæmdaraðili á vettvangi og vinnur náið með stjórnvöldum og öðrum mannúðarsamtökum til að tryggja dreifingu hjálpargagna. Konur og börn yngri en fimm ára sem hafa flúið heimkynni eru í miklum meira hluta þeirra sem nú hafast við í yfirfullum bráðabirgðabúðum og óttast hjálparsamtök mikinn matarskort á svæðinu og þörfin fyrir aðstoð er brýn.

Hjálparstarfið á vettvangi snýst um að vernda líf og lífsafkomu fólks, bæta fæðuöryggi með því að útvega korn og verkfæri til landbúnaðar, úthluta búfé, tryggja fólki húsaskjól, og veita beinan óskilyrtan fjárstuðning. Einnig er unnið að því að bæta aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu, tryggja fræðslu um smitvarnir gegn COVID-19 ásamt því að dreifa sóttvarnarbúnaði til einstaklinga, svo eitthvað sé nefnt. Kórónuveirufaraldurinn hefur torveldað allt hjálparstarf en starfsfólk Lútherska heimssambandsins leggur ríka áherslu á að útvega fólkinu sóttvarnarbúnað og fræða um forvarnir.

Mannúðaraðstoð í Eþíópíu vegna þurrka

Átök, þurrkar og fátækt herja á Eþíópíu og yfir 24 milljónir íbúa þurfa aðstoð eingöngu vegna þurrkanna. Í júní árið 2022 sendi ACT Alliance út neyðarbeiðni vegna þurrka í þremur ríkjum; Sómalíu, Keníu og Eþíópíu. Í kjölfar hennar sendi Hjálparstarf kirkjunnar tæplega 22 milljóna króna framlag til mannúðaraðstoðarinnar og nam styrkur utanríkisráðuneytisins til verkefnisins 20 milljónum króna. Framlag Íslendinga var eyrnamerkt mannúðaraðstoð Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins, LWF/DWS í Oromía- og Sómalí-fylkjum í Eþíópíu. Í Sómalífylki nær mannúðaraðstoð LWF meðal annars til Kebrebeyah-héraðs en þar er stærsta verkefni Hjálparstarfsins í þróunarsamvinnu.

Lútherska heimssambandið hefur starfað í Eþíópíu frá árinu 1971 og veitt þar bæði mannúðaraðstoð og starfað í þróunarsamvinnu. LWF hefur m.a. aukið aðgengi fólks að vatni og hreinlætisaðstöðu og útvegað fólki húsaskjól, mat, búsáhöld og reiðufé til nauðþurfta. Fólkið í fylkjunum tveimur býr við alvarlegan fæðuskort og búfénaðurinn fellur úr hor vegna þurrkanna. Aðgengi að vatni er afar takmarkað sem leiðir til þess að fólkið yfirgefur heimkynni sín og fer á vergang. Heilsufar versnar og börnin sækja ekki skóla.

Efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins og innrás Rússa í Úkraínu hafa gert slæmt ástand verra og ársverðbólga í landinu mælist í tugum prósenta. Eldsneytisskortur, uppskerubrestur, engisprettufaraldur og útbreiðsla kóleru hrjá fólkið sem getur sér litlar bjargir veitt.

Verkefninu sem Hjálparstarfið á aðild að er ætlað að ná til 72.000 íbúa landsins, bæði heimafólks og fólks á vergangi. Þessum áfanga skal náð á þeim átján mánuðum sem verkefnið stendur yfir, eða frá júnímánuði 2022 til ársloka 2023. Markmið verkefnisins eru að bjarga mannslífum og koma í veg fyrir hungursneyð og alvarlega vannæringu fólksins sem býr á verstu þurrkasvæðunum. Þá verður veittur sálfélagslegur stuðningur og stuðlað að viðnámsþrótti samfélaganna gegn afleiðingum loftslagsbreytinga. Stærstu kostnaðarliðir verkefnisins eru að útvega vatn og hreinlætisaðstöðu og að tryggja fæðuöryggi fólksins.

„Þetta eru einir mestu þurrkar sem sögur fara af,“ sagði Sophie Gebreyes framkvæmdastjóri LWF sem heimsótti Ísland í september síðastliðnum, og vísaði til ný endurskoðaðrar viðbragðsáætlunar samtakanna við þurrkum, en heimsókn hennar til Íslands var sérstaklega hugsuð til að vekja athygli á grafalvarlegu ástandi í landinu og brýnni þörf fyrir aðstoð alþjóðasamfélagsins.

Hvað starfssvæði Hjálparstarfsins í Sómalí-fylki varðar þá er um verstu þurrka að ræða í fjóra áratugi sem hafa leitt til þess að 600.000 manns hafa bæst við tölu þeirra sem voru þegar á vergangi innan svæðisins og 3,5 milljónir manna sem þurfa aðstoð við að fæða sig. Búsmali fólksins á svæðinu hefur hríðfallið vegna þurrka og sjúkdóma og er þá sama hvort um geitur, sauðfé eða nautgripi er að ræða.

Samkvæmt Eþíópísku heilbrigðisstofnuninni (EPI) hefur kólera brotist út á tveimur aðskyldum svæðum í Sómalí-fylki og er um hliðarverkun þurrkanna að ræða. Þá hafa bændafjölskyldur gripið til þess örþrifaráðs að leggja sér útsæði sitt til munns. Þegar allt er samantekið meta stjórnvöld og hjálparsamtök stöðuna svo að vegna þrálátra þurrka, mögulega að stórum hluta vegna loftslagsbreytinga, sé staða íbúa á stórum svæðum innan Eþíópíu afar ótrygg.

Árið 2022 sendi Hjálparstarf kirkjunnar tæpar 33 milljónir króna til systursamtaka í Eþíópíu vegna verkefnisins. Áður nefnt 22 milljóna króna framlag í júlí 2022 og auk þess tæplega ellefu milljóna króna framlag í desember. Þetta var mögulegt með tilstyrk utanríkisráðuneytisins sem lagði til 30 milljónir króna.

Rammasamningar Hjálparstarfs kirkjunnar og utanríkisráðuneytisins voru undirritaðir árið 2022 en þeir hverfast um stuðning ráðuneytisins við verkefni Hjálparstarfsins á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Samkvæmt samningunum leggur ráðuneytið til framlag sem nemur stórum hluta af kostnaði við skilgreind verkefni.

Hjálparstarf kirkjunnar á Íslandi hóf neyðarsöfnun í kjölfar innrásar Rússlandshers í Úkraínu og hefur til þessa sent 56,6 milljónir króna til neyðaraðstoðar í landinu og í nágrannaríkjum. Rúmlega 26 milljóna króna framlag hefur borist frá styrktarsamfélagi Hjálparstarfsins; fyrirtækjum, einstaklingum og sóknum þjóðkirkjunnar og 30 milljóna króna styrkur hefur borist frá utanríkisráðuneytinu og runnu framlögin til verkefna systurstofnana í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance.

Systurstofnanir Hjálparstarfs kirkjunnar hafa starfað í Úkraínu og í nágrannalöndum um langt skeið. Um leið og innrásin var gerð hófu þær að veita fólkinu aðstoð, bæði í landinu sjálfu og flóttafólki í nágrannalöndunum í samstarfi við stofnanir Sameinuðu þjóðanna og önnur hjálparsamtök á svæðinu. Það er mikið verk að samhæfa faglegt hjálparstarf í ringulreið og skipulagning áframhaldandi hjálparstarfs fer fram samhliða því sem lífsbjargandi aðstoð er veitt.

Mannúðaraðstoð í Sýrlandi

Í júlí 2021 sendi Hjálparstarf kirkjunnar um 10.7 milljóna króna fjárframlag til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi. Átök höfðu þá geisað í landinu í rúman áratug en kórónuveirufaraldurinn enn aukið á sára neyð fólksins þar. Að mati Sameinuðu þjóðanna þurftu um ellefu milljónir íbúa á aðstoð að halda og rann fjárframlagið til verkefna Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins sem leggur áherslu á að vernda líf og heilsu íbúanna og að veita börnum jafnt sem fullorðnum sálfélagslegan stuðning.

Áhersla er lögð á að hlúa að börnum, eldra fólki og sjúklingum og að aðstoða fjölskyldur við að koma undir sig fótunum á ný.

Framlagið var að meðtöldum stuðningi utanríkisráðuneytisins sem veitti Hjálparstarfi kirkjunnar styrk að upphæð tíu milljónir króna. Frá árinu 2014 hefur Hjálparstarf kirkjunnar, með stuðningi ráðuneytisins, sent fjárframlag til mannúðaraðstoðar við stríðshrjáða Sýrlendinga sem nemur rúmlega 118 milljónum króna.

Jarðskjálftar í Tyrklandi og Sýrlandi

Aðfaranótt 6. febrúar síðastliðinn reið jarðskjálfti, sem var 7,8 að stærð, yfir landamærahéruð Tyrklands og Sýrlands. Hundruð stórra eftirskjálfta fylgdu í kjölfarið. Um hrikalegar náttúruhamfarir var að ræða á þeim landsvæðum sem liggja næst upptökum stóru skjálftana.

Ekki er lengur talað um tugþúsundir manna sem þurfa að takast á við nær ómögulegar aðstæður heldur neyð hundruð þúsunda manna eða milljóna.

Björgunarfólk og hjálparsamtök hafa frá fyrsta degi unnið hörðum höndum en verkefnið er ógnarstórt. Eyðileggingin sem blasir við beggja vegna landamæra Tyrklands og Sýrlands er í raun óhugsandi.

Þegar þetta er skrifað er tala látinna um 47.000 manns. Talsmenn Sameinuðu þjóðanna telja að tala látinna eigi eftir að verða miklum mun hærri. Hvorki tyrknesk yfirvöld né sýrlensk hafa gefið út hversu margra er saknað. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, (WHO) telur að 26 milljónir manna í löndunum tveimur eigi um sárt að binda og þurfi á neyðaraðstoð að halda.

Strax eftir að fyrsti og stærsti jarðskjálftinn reið yfir í landamærahéruðum Tyrklands og Sýrlands hófu systursamtök Hjálparstarfs kirkjunnar á staðnum mat á því hvernig bregðast ætti við með sem skilvirkustum hætti. Á sama tíma var hjálpargögnum dreift; mat, lyfjum, teppum og hlýjum klæðnaði. Þá strax var ljóst að þörfin fyrir neyðaraðstoð var gríðarleg. Upplýsingar frá hamfarasvæðunum staðfesta nú að þörfin er margföld miðað við þá stöðu sem viðbragðsaðilar héldu í upphafi að væri við að eiga. Þetta á ekki síst við um Sýrland.

Eftirlifendur náttúruhamfaranna í Tyrklandi og Sýrlandi hafast við á götum úti eða í neyðarskýlum. Þeir eru allslausir að kalla og háðir neyðaraðstoð. Næstu vikurnar þarf að hlúa að slösuðum, skjóta skjólshúsi yfir þá sem hafa misst heimili sín og miðla hjálpargögnum til þeirra sem hafa misst aleigu sína.

Verkefnin eru óteljandi og af margvíslegum toga. Neyðarskýli hafa verið sett upp í kirkjum, moskum, skólabyggingum eða samkomuhúsum hvers konar sem stóðu af sér skjálftana. Þar hafa þeir sem þurfa aðgang að dýnum, teppum og heitum mat en matarskortur er orðinn tilfinnanlegur. Sérstaklega þarf niðursoðinn mat og tilbúna rétti þar sem matreiðsla er víða útilokuð.

Aðeins fáeinum klukkustundum eftir að jarðskjálftarnir riðu yfir hófu systursamtök Hjálparstarfs kirkjunnar að veita aðstoð sína. Þá strax var ljóst að þörfin fyrir neyðaraðstoð var gríðarleg. Ljóst er að alþjóðasamfélagið þarf að veita Tyrkjum og Sýrlendingum aðstoð næstu mánuðina og jafnvel árin.

Hjálparstarf kirkjunnar hóf strax neyðarsöfnun vegna hamfaranna enda ljóst að þær voru af þeirri stærðargráðu að alþjóðleg neyðaraðstoð væri aðkallandi. Hjálparstarf kirkjunnar sendi 22. febrúar rúmar 25 milljónir króna til systurstofnana í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance, sem veita fórnarlömbum jarðskjálftanna í Tyrklandi og Sýrlandi neyðaraðstoð. Framlag Hjálparstarfsins er að meðtöldum veglegum styrk utanríkisráðuneytisins til verkefnisins.

 

Styrkja