Börn og ungmenni sem alast upp í sárafátækt í Kampala, höfuðborg Úganda, eiga flest fáa kosti. Mörg eru misnotuð frá unga aldri. Þau sem fá tækifæri nýta það oftar en ekki til hins ítrasta og draumurinn er að eignast eigin fyrirtæki.

Bridget Katushame er sautján ára gömul stúlka sem býr í Kampala, höfuðborg Úganda. Hún, eins og svo mörg börn og ungmenni í borginni, ólst upp í sárafátækt. Þessa stöðu hennar nýttu sér henni eldri karlmenn en það var eins með hana og fjölmarga jafnaldra hennar að hafa fengið sáralitla eða enga fræðslu um hættur á netinu og ábyrga net-og samfélagsmiðlanotkun. Þegar félagsráðgjafar UYDEL buðu henni að hefja nám í einni af smiðjum samtakanna var hún, þá aðeins fimmtán ára, í raun ofurseld kvölurum sínum og fórnarlamb kynferðislegrar misnotkunar á netinu.

„Lifði á loftinu“

Þegar í smiðjuna var komið valdi Bridget að leggja stund á hárgreiðslunám. Þess utan tók hún þátt í fjölmörgum námskeiðum sem hugsuð eru til að styrkja ungt fólk í atvinnuleit. Við útskrift árið 2023, fékk Bridget vinnu á hárgreiðslustofunni Maama Bridget‘s Saloon í einu hverfa Kampala er heitir Kinawataka. Einmitt þar setti hún á fót sína eigin hárgreiðslustofu þá um haustið og nefndi Bridget‘s Beuty Saloon. Bridget nýtti til þess sparifé sitt sem hún hafði önglað saman á ótrúlega stuttum tíma, eða þremur mánuðum. Þá mánuði „lifði hún á loftinu“, til að flýta því að draumur hennar gæti ræst.

Mánaðarlega nær Bridget að afla nægilegra tekna til að borga leigu, kaupa helstu nauðsynjar, bæði fyrir sig og systkini sín. Þess utan leggur hún fyrir til að kaupa fjölbreyttar snyrtivörur og eykur þannig úrvalið fyrir viðskiptavini stofunnar.

En það er ekki tekið út með sældinni að byggja upp lítið fyrirtæki í milljónaborginni Kampala. Aðspurð um hvernig rekstur snyrtistofunnar gengur, segir Bridget.

Langir dagar

„Ég þarf að vinna alla daga vikunnar. Opna stofuna alltaf klukkan sjö og hef opið fram undir myrkur. Það gengur stundum vel en svo eru líka erfiðleikar. Þess vegna verð ég að vinna eins mikið og ég mögulega get,“ Þetta þýðir við miðbaug, þar sem Kampala liggur, að stofan hefur afskaplega reglulegan opnunartíma, enda gengur sól þar til viðar á svipuðum tíma alla daga.

Bridget útskýrir að viðskiptavinir hennar koma inn af götunni á öllum tímum, og eru það konur eingöngu. Aðspurð segir hún að karlmenn væru velkomnir ef herraklipping hefði veriið hluti af náminu í smiðju UYDEL. Svo var hins vegar ekki enda var henni kennt að flétta hár kynsystra sinna sem gefur góð atvinnutækifæri. Það er reyndar ekki erfitt að átta sig á því af hverju svo er, enda virðast allar konur í borginni vera með fléttað hár og sinna því af mikilli kostgæfni. Má nefna að sá sem hér heldur á penna spurði úganska konu, bláeygur, hvort fyrir þessari hártísku tengdust einhverjar hefðir eða eitthvað sem ætti djúpar rætur í menningu landsmanna. Þessari spurningu fylgdi stutt en skýrt svar.

„Nei, við viljum bara líta vel út.“

Ég og vinkonurnar

Bridget segist vera hamingjusöm.

„Ég get stutt mömmu mína og látið hana fá smá pening. Systkini mín fá líka meira öryggi,“ segir Bridget og lítur bjartsýn til framtíðarinnar.

„Eftir þrjú ár ætla ég að eiga stóra snyrtistofu og hafa margar stelpur í vinnu. Ég og vinkonur mínar getum þá unnið saman. Það verður líka verslun með alls konar snyrtivörur og falleg föt. Ég þarf að vinna mikið en það er allt í lagi. Ég er búin að eiga stofuna mína í sex mánuði. Ef mér gengur áfram vel þá mun draumur minn rætast – það er alveg öruggt,“ segir Bridget og kveður okkur með breiðu brosi.

Styrkja