Útgáfa fréttabréfs Hjálparstarfs kirkjunnar hófst árið 1975 og hefur staðið nær óslitið síðan. Nú fimmtíu árum frá því að fyrsta fréttabréfið leit dagsins ljós hefur útgáfan í heild sinni verið birt á timarit.is – stafrænu bókasafni á vegum Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Fréttabréf Hjálparstarfs kirkjunnar hóf göngu sína á fimmta starfsári stofnunarinnar en um langt árabil hefur stór hluti útgáfunnar verið óaðgengileg þeim sem áhuga hafa á starfi og sögu Hjálparstarfsins og hjálparstarfi á Íslandi almennt. Eldri árgangar fréttabréfsins, frá árunum 1975 til 2015, hafa ekki verið birtir á heimasíðu Hjálparstarfsins þar sem þeir hafa einungis verið varðveittir í prentútgáfu á Landsbókasafni – Háskólabókasafni. Nú í október síðastliðnum datt hins vegar útgáfan í heild sinni inn á vefinn timarit.is og er öllum aðgengileg án endurgjalds. Um er að ræða 48 árganga fréttabréfsins en á þeim tíma hafa 108 tölublöð birst lesendum.

Fyrir þau sem ekki þekkja til er timarit.is stafrænt bókasafn á vegum Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns. Þar er að finna stafrænar útgáfur íslenskra, færeyskra og grænlenskra tímarita og dagblaða frá 17. öld til nútímans. Stuðst er við nýjustu tækni í geymslu og miðlun upplýsinga.

Sömu línu fylgt frá upphafi

„Frá upphafi hefur Hjálparstofnun kirkjunnar haft tvíþætt verkefni: Hún vill hjálpa, þegar hörmungar dynja yfir vegna náttúruumbrota eða af öðrum orsökum. Og hún vill aðstoða einhverja snauða í löndum örbirgðarinnar til þess að koma högum sínum í betra horf.“

Svo hljómar inntakið í ávarpi Sigurbjörns Einarssonar, biskups Íslands, til lesenda fyrsta fréttabréfs Hjálparstofnunar kirkjunnar í desember árið 1975, og horfir hann þar til baka til þeirra fimm ára sem voru liðin frá því að starfsemin hófst. Enn þann dag í dag er þessari sömu línu fylgt og á síðum blaðsins hefur verið greint frá þeim fjölbreyttu verkefnum sem Hjálparstarfið hefur sinnt. Þar er að finna umfjöllun fimm áratuga um margt sem er framandi er varðar verklag við hjálparstarf, en annað er kunnuglegt.

Fjöldi þeirra verkefna sem Hjálparstarfið hefur stutt á einn eða annan hátt er erfitt að telja saman. Hitt liggur fyrir að Hjálparstarfið hefur starfað í 61 landi í fimm heimsálfum frá stofnun þess árið 1970 – og er þar um að ræða mannúðaraðstoð vegna stríðsátaka og náttúruhamfara auk þróunaraðstoðar í fjölmörgum ríkjum heims, ekki síst í Afríku.

Höndin og síðar Margt smátt…

Fyrsti umsjónarmaður fréttabréfs Hjálparstarfs kirkjunnar var Guðmundur Einarsson, þá nýtekinn við sem framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins. Árið 1976 hóf fréttabréfið göngu sína undir heitinu Höndin en þá komu að fyrsta tölublaðinu auk Guðmundar, sem titlaður var ritstjóri og ábyrgðarmaður, fimm blaðamenn og tveir ljósmyndarar auk hönnuðar sem komu að útgáfunni. Tölublöðin á eftir skrifuðu tveir til þrír blaðamenn, auk Guðmundar. Þegar leið á er Guðmundur einn nefndur en prestar og aðrir lausapennar sendu inn greinar, og þá ekki síst biskup Íslands, Sigurbjörn Einarsson.

Benedikt Jasonarson ritstýrði Höndinni um skeið svo og Kristjana Jónsdóttir. Önnur sem það gerðu áður en útgáfan lagðist tímabundið af árið 1985 voru þau Hilmar Baldursson, Sigurjón Heiðarsson, Jenný Ásmundsdóttir og Gunnlaugur Stefánsson.

Árið 1988 hófst útgáfa fréttabréfsins að  nýju með útgáfu eins tölublaðs fyrir jólin. Árið eftir hófst útgáfan að nýju og fékk fréttabréfið þá heitið Margt smátt… sem gefið hefur verið út til þessa dags. Má þó geta þess að í ársbyrjun var þetta heiti fréttabréfsins fellt niður. En útgáfan hefur verið samfelld frá 1988 og hafa sex starfsmenn Hjálparstarfsins farið með umsjón þess eru eru: Þórdís Sigurðardóttir (1989 – 1990), Jóhannes Tómasson (1990 – 1996), Anna M. Þ. Ólafsdóttir (1996 – 2007, 2013), Bjarni Gíslason, núverandi framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins (des 2007 – 2013), Kristín Ólafsdóttir, núverandi verkefnastýra erlendra verkefna (2014 – 2022) og
Svavar Hávarðsson, fræðslu- og upplýsingafulltrúi Hjálparstarfsins, sem hefur haft útgáfuna með höndum síðan í ársbyrjun 2023.

Á timarit.is má nú nálgast alla árganga fréttabréfs Hjálparstarfsins frá upphafi til þessa dags, en áhugasamir geta sem fyrr nálgast blöðin sem gefin hafa verið út frá og með árinu 2015 á vef Hjálparstarfsins – https://www.hjalparstarfkirkjunnar.is/um-okkur/#margt-smatt.

Styrkja