„Fyrst voru konurnar þrjár sem ég bað sérstaklega um að koma, svo við gætum byrjað verkefnið. Svo urðu þær fimm og síðan sjö og á endanum voru þær orðnar 40,“ segir Vilborg Oddsdóttir, verkefnastýra innlendra verkefna Hjálparstarfs kirkjunnar, um upphaf saumaverkefnis Hjálparstarfsins sem stofnað var til árið 2017. Verkefnið stendur styrkum fótum í annars fjölbreyttu innanlandsstarfi Hjálparstarfsins.
Valdeflingarverkefnið sem um ræðir ber yfirskriftina Saumó – tau með tilgang og er fyrir konur úr hópi innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda sem dvelja hér á landi og eru útsettar fyrir félagslegri einangrun. Í hnotskurn má lýsa verkefninu svo: Konurnar endurvinna efni sem almenningur hefur gefið og læra að sauma úr því margvíslega nytjahluti. Við saumavinnuna kynnast konurnar betur en þær koma víða að og hafa ólíkan bakgrunn. Verkefnið stuðlar þannig að aukinni virkni kvennanna og félagsskap þeirra í milli um leið.
Gengið skrefinu lengra
Að sögn Vilborgar er verkefnið unnið í samvinnu við Hjálpræðisherinn og hittist hópurinn upphaflega einu sinni í viku. Vegna mikillar eftirspurnar var ekki umflúið að skipta hópnum upp og komu konurnar saman á mánudögum og fimmtudögum. Félagsráðgjafi Hjálparstarfsins hafði umsjón með mánudagshópnum en Hjálpræðisherinn í Reykjavík sá um samveruna á fimmtudögum.
Á nýliðnu starfsári var gengið skrefinu lengra; starfið aukið og samverustundum hópsins fjölgað í þrjár á viku. Vegna aukins umfangs verkefnisins var Hildur Loftsdóttir ráðin sem verkefnastýra Hjálparstarfsins og hóf hún störf í janúar síðastliðnum. Til viðbótar við saumavinnuna var í vetur tekin upp íslenskukennsla, skartgripagerð og fjölbreyttari hannyrðir. Nú er svo komið að verkefnið hefur fest sig kyrfilega í sessi og hlotið sérstakan verkefnastyrk frá félags- og vinnumálaráðuneytinu.
Íslenskukennslu bætt við
„Á mætingaskrá saumaverkefnisins eru nöfn 70 kvenna sem hafa mætt til starfa á þeim tíma sem verkefninu hefur verið haldið úti,“ segir Vilborg. „Sumar þeirra hafa komið sjaldan en aðrar mæta alltaf þegar þær eiga þess kost. Stærsti hópurinn sem sækir námskeiðið nú eru frá Venesúela en afganskar konur eru líka margar. Þá eru ónefndar konur frá Úkraínu, Gana, Nígeríu, Sómalíu, Palestínu og Marokkó. Hluti af hópnum hefur fengið kennitölu en sækja námskeiðið til að rjúfa félagslega einangrun og til dægrastyttingar. Stærsti hópurinn eru konur sem eru ekki komnar með kennitölu og eru að bíða eftir að mál þeirra verði kláruð.“
Íslenskukennsla er nýjung í verkefninu sem mikill áhugi er fyrir í hópnum.
„Konunum er skipt í tvo hópa eftir því hvort þær kunna vestrænt letur eða ekki. Fyrrnefndi hópurinn er þegar byrjaður að mynda setningar og læra grunnatriðin í málfræði en sá seinni einbeitir sér að því að skrifa og ná færni til að gefa nauðsynlegar upplýsingar um sjálfa sig, auk þess að lesa og skrifa,“ segir Vilborg og bætir við að starfið er sett upp sem námskeið í saumum sem lýkur með útskrift. Til að útskrifast sauma konurnar lítið veski. Í veskið fá þær allt sem þarf til fyrir einfaldan saumaskap; skæri, krít, títuprjóna, málband og sprettuhníf. Þær fá einnig að sauma eitthvað að vild; buxur á sig eða kjól, eða jafnvel eitthvað fyrir börnin, tekur Vilborg sem dæmi.
Konurnar sem taka þátt í námskeiðinu gefa vinnu sína. Vilborg útskýrir að þess vegna er lagt upp með að þær fái létta máltíð í hádeginu og gott með kaffinu. Einnig er konunum boðið í vorferð. Árið 2022 var forseti Íslands heimsóttur. Í sumar lá leið hópsins upp í Borgarfjörð þar sem Hraunfossar voru skoðaðir, eins Deildartunguhver og borðað á góðum veitingastað í Húsafelli. Konurnar eru undantekningalaust afar þakklátar fyrir ferðirnar enda upplifun fyrir þær.
Fríríki
„Það eru margar dásamlegar sögur af konunum okkar sem hafa fengið vinnu. Það er ein frá Nígeríu sem var búin að bíða mjög lengi og á fimm börn með manninum sínum. Hún kemur ennþá í saumana, þrátt fyrir að vera komin með kennitölu og vinnu, því þar segir hún eina staðinn sem hún getur fengið smá bros og klapp og slakað á. En heima gengur hún um grátandi því hún er svo kvíðin fyrir framtíðinni og hvað hún eigi að gera. Þetta er því svolítið fríríki þessara kvenna sem koma til að fá faðmlag og til að gefa eitthvað gott af sér,“ segir Vilborg að lokum.
„Það eru margar dásamlegar sögur af konunum okkar sem hafa fengið vinnu. Það er ein frá Nígeríu sem var búin að bíða mjög lengi eftir kennitölu og á fimm börn með manninum sínum. Þegar þau fengu loks kennitölu var á sama tíma verið að þrífa hjá okkur í Skjólinu – stórþrif sem voru nauðsynleg. Ég átti leið inn í Skjólið og það fyrsta sem ég sá var konan mín úr saumunum, daginn eftir að hún fékk kennitöluna. Hún kemur ennþá í saumana, þrátt fyrir að vera komin með kennitölu og vinnu. Þar segir hún eina staðinn sem hún getur fengið smá bros og klapp og slakað á. En heima gengur hún um grátandi því hún er svo kvíðin fyrir framtíðinni og hvað hún eigi að gera. Þetta er því svolítið fríríki þessara kvenna sem koma til að fá faðmlag og til að gefa eitthvað gott af sér,“ segir Vilborg.