Kvíði og óánægja braust fram þegar ég fékk tölvupóst um úthlutun á starfsnámi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. Þó mætti ég fyrsta daginn með jákvætt hugarfar. Hugarfar mitt breyttist eftir viðveru þar. Starfsemin er áhugaverð, starfsfólkið frábært og liðsandinn magnaður.
Ég var nemi hjá henni Helenu, félagsráðgjafa. Vegna forfalla hennar fyrstu tvær vikurnar, fylgdi ég félagsráðgjöfunum Vilborgu og Lovísu. Mér fannst fróðlegt að sjá ólík vinnubrögð þeirra og fá innsýn í málaflokka sem viðkoma Hjálparstarfinu.
Á mánudögum var ég í Skjólinu. Þar fékk ég kennslu frá starfskonum Skjólsins, Rósu og Unu. Þá fékk ég innsýn í líf heimilislausra kvenna hérlendis og lærði hvað Skjólið er þeim dýrmætt. Yfir minn tíma í Skjólinu fékk ég tækifæri til að tala við konurnar og hlusta á þeirra sögur. Við höfum öll okkar djöful að draga, sem á verulega við í Skjólinu. Einnig kynntist ég VoR-teyminu og af og til voru samnemendur mínir í fylgd þeirra. Þá gafst mér tækifæri til að kynna fyrir þeim Skjólið og efla minn skilning á starfseminni.
Þriðjudagar voru dýrmætir og í takt við námið. Sjálfsskoðun fylgir náminu, sem efldist á þeim dögum. Þá var ég virkur þátttakandi í námskeiði með valdeflandi hugmyndafræði. Það ber heitið Stattu með sjálfri þér (SMS). Konur á örorkubótum sækja námskeið að boði félagsráðgjafa, sem einnig mæta í viðtal til þeirra. Þá fékk ég að taka þátt í hópstarfi og sjá notkun viðtalstækni hjá félagsráðgjöfum.
Á miðvikudögum sat ég og tók viðtöl við fólk sem óskaði eftir aðstoð í formi inneignarkorts eða lyfjaaðstoðar. Þá fékk ég að heyra af reynslu flóttamanna, hælisleitenda og innflytjenda og fékk meðal annars innsýn í daglegt líf þeirra og hagi. Á fimmtudögum var ég í viðveru kvenna sem höfðu flúið eigið land. Þær hittust þrisvar í viku til að sauma, hekla, prjóna, mynda félagsleg tengsl og fá íslenskukennslu. Þær töluðu ekki allar ensku og því gat ég ekki talað við þær allar. Þessi viðvera var lærdómsrík, áhugaverð og veitti tækifæri til að auka eigin skilning á ólíkri menningu.
Sem karlkyns félagsráðgjafarnemi upplifði ég kvíða fyrir þátttöku í þeim úrræðum sem ég kynntist. Þessi úrræði eiga það sameiginlegt að hafa einungis konur sem þátttakendur, konur sem sumar hafa sögu af ofbeldi af hendi karlmanna. Hins vegar fékk ég meira og minna hlýjar viðtökur frá konunum og upplifði mig velkominn.
Hjálparstarf kirkjunnar er mjög ólíkt því sem ég átti von á. Ég hafði ekki kynnt mér starfsemina, en hún reyndist dýrmæt fyrir minn þroska sem verðandi félagsráðgjafi. Ég fékk að sjá það sem ég hafði lært í náminu og veitti mér skilning á krefjandi aðstæðum ólíkra hópa. Ég lærði hvað kerfið okkar er ótrúlega ófullkomið og oft ófært um að grípa fólk til veita nauðsynlega aðstoð. Eftir að starfsnáminu var lokið hafði ég meiri skilning á ólíku lífi fólks, aðstæðum þess og erfiðleikum. Ég er þakklátur Hjálparstarfinu og hvet alla til að kynna sér starfsemi þeirra.
Nikulás Guðnason, félagsráðgjafarnemi, MA.