Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, undirrituðu í gær rammasamning sem hverfist um stuðning ráðuneytisins við verkefni Hjálparstarfsins á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Samkvæmt samningnum leggur ráðuneytið til framlag sem nemur stórum hluta af kostnaði við skilgreind verkefni.
Rammasamningurinn er til fjögurra ára, nær til tímabilsins 2025 – 2028, og mun veita Hjálparstarfinu dýrmætan fyrirsjáanleika sem auðveldar skipulagningu verkefna og eykur viðbragðsflýti, til dæmis þegar neyðarástand skapast.
„Það er ómetanlegt fyrir Hjálparstarfið að fá þennan góða stuðning frá utanríkisráðuneytinu til fjögurra ára, samstarfsaðilar í þróunarsamvinnuverkefnum og mannúðaraðstoð hafa einnig tjáð okkur hvað þessi stuðningur skiptir þá miklu máli á tímum þar sem margir eru að draga í land og það eru þeir sem eru verst settir sem fara verst út úr því. Samstarfsaðilar okkar þakka fyrir frábæran stuðning frá Íslandi,“ segir Bjarni.
Samstarf stjórnvalda við íslensk félagasamtök á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu á sér langa sögu og hefur fjölbreytni verkefna aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Markmið með samningunum er að gott samstarf sé á milli ráðuneytisins og félagasamtakanna sem stuðla að árangri í þróunarsamvinnu, framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og bættum lífskjörum í lágtekjuríkjum.
Hjálparstarf kirkjunnar leggur áherslu á stuðning við fólk og samfélög með það að leiðarljósi að auka sjálfbærni þeirra, virkja þátttakendur og byggja upp staðbundna þekkingu til að hraða þróun. Verkefni á sviði þróunarsamvinnu eru unnin í Afríkuríkjunum Eþíópíu, Úganda og Malaví og er lögð áhersla á bætta lífsafkomu, að auka viðnámsþrótt gegn loftslagsbreytingum og jafnrétti kynjanna. Á sviði mannúðar leggur Hjálparstarf kirkjunnar áherslu á aðstoð í samvinnu við Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna (ACT Alliance) og hjálparstarf Lúterska heimssambandsins (Lutheran World Federation, World Service, LWF World Service).