Hjálparstarf kirkjunnar þakkar Landlækni kærlega fyrir traustið en í gær tók Hjálparstarfið á móti styrkjum úr Lýðheilsusjóði til tveggja verkefna fyrir fólk sem býr við fátækt og félagslega einangrun.
Fyrra verkefnið, Töskur með tilgang, er virkniverkefni fyrir erlendar konur sem hittast vikulega og sauma fjölnota poka og eiga saman ánægjulega stund. Konurnar segja að með þátttöku í verkefninu eflist þær félagslega og andlega. Með saumaskapnum er efni sem annars hefði verið fargað endurnýtt og það stuðlar svo aftur að minni plastnotkun. Verkefnið er í samstarfi við Hjálpræðisherinn í Reykjavík.
Seinna verkefnið, Ræktum garðinn okkar, er garðyrkjuverkefni í Seljagarði í Breiðholti fyrir fjölskyldur sem búa við fátækt og félagslega einangrun. Fjölskyldurnar rækta saman grænmeti yfir sumarið undir leiðsögn garðyrkjufræðings og þær læra allt um geymsluaðferðir uppskerunnar í sumarlok. Sultugerðin kemur þar sterkust inn. Samveran úti við og samvinnan auka lífsgæði þátttakenda og geta bætt andlega og félagslega heilsu þeirra.