Jónas Þórir Þórisson fyrrverandi framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar lést á gjörgæsludeild Landspítalans þann 8. ágúst síðastliðinn, 77 ára að aldri. Jónas lætur eftir sig eiginkonu, Ingibjörgu Ingvarsdóttur, börn, barnabörn og barnabarnabörn. Starfsfólk Hjálparstarfsins vottar fjölskyldu Jónasar sína dýpstu samúð. Góður maður er genginn.
Jónas gegndi starfi framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar frá árinu 1990 til loka árs 2013 en á þeim tuttugu og þremur árum sem hann veitti stofnuninni forstöðu tóku bæði hún og allt umhverfi hennar miklum breytingum. Þrír starfsmenn voru á skrifstofunni til að byrja með en verkefnin erlendis voru á Indlandi og í Eþíópíu. Jónas hafði þó fljótt frumkvæði að verkefnum í Mósambík og Keníu og síðar í fleiri samstarfslöndum ásamt því að veita frekari aðstoð vegna fátæktar hér á Íslandi og mannúðaraðstoð á vettvangi hamfara og átaka.
Í þróunarsamvinnu lagði Jónas höfuðáherslu á að tryggja fólki aðgengi að hreinu vatni og að fólk fengi fræðslu um mikilvægi hreinlætis. Öllu starfi vildi hann haga þannig að í því fælist hjálp til sjálfshjálpar, að gera fólk ekki háð aðstoð heldur að það tæki virkan þátt í verkefnunum. „Við höfum viljað vinna með fólki en ekki fyrir það. Þess vegna höfum við ekki sent starfsfólk út til starfa nema til neyðaraðstoðar. Það er mun skynsamlegra að fólkið vinni vinnuna sjálft, það er ódýrara og þótt það taki lengri tíma þá verður til þekking sem verður eftir,“ sagði Jónas í viðtali við fréttablað Hjálparstarfs kirkjunnar, Margt smátt…., 1. tbl. 2014.
Jónas var gegnheill maður sem efldi tiltrú almennings í garð Hjálparstarfsins en það hefur gert stofnuninni kleift að starfa með og fyrir skjólstæðinga bæði hér heima og á erlendum vettvangi. Í viðtalinu árið 2014 sagði Jónas ekki sjálfgefið að hjálparstarf gengi vel en að stofnunin hefði verið heppin með samstarfsaðila og verkefnin hefðu skilað árangri.
„Mér finnst það vera forréttindi að sjá að þau hafi leitt til heilla fyrir skjólstæðinga okkar. Mikið og gott samstarf við stjórnvöld er annað atriði sem mér finnst þakkarvert. Þegar ég kom til starfa var ekkert samstarf í gangi en nú er samstarfið mjög gott og starfsfólk í utanríkisráðuneytinu býr yfir mikilli faglegri þekkingu. Faglegt samstarf milli hjálparsamtaka er líka mikið og gott. Allt starf er í raun orðið faglegra og samvinna miklu meiri milli allra sem koma að hjálparstarfi og það er öllum til heilla. Stjórnvöld hafa fjármagnið og þekkingu á hærri stjórnstigum en frjálsu félagasamtökin búa yfir þekkingu á grasrótinni sem er mjög mikilvægt. Grasrótarsamtök eru mjög mikilvægir samstarfsaðilar fyrir stjórnvöld þegar samvirkni verður á milli þeirra. Þannig að ætli ég geti ekki dregið þetta saman með því að segja að það sem standi upp úr sé að við höfum færst frá samkeppni til faglegs samstarfs í hjálparstarfi bæði á Íslandi og á alþjóðavísu reyndar líka,“ sagði þessi mikli mannvinur sem nú er fallinn frá.
Á myndinni er Jónas á góðri stundu með samstarfsfólki í Eþíópíu árið 2011 en nánar um lífshlaup hans má lesa hér.