Á Íslandi veitir Hjálparstarf kirkjunnar fólki sem býr við fátækt aðstoð í neyðartilfellum ásamt því að beina fólki þangað sem það getur vænst aðstoðar sem stofnunin veitir ekki beint. Hjálparstarfið leggur ríka áherslu á að tryggja velferð barna og því er sérstaklega hlúð að barnafjölskyldum. Starfið felst í því að greina vandann, veita félagslega ráðgjöf og efnislegan stuðning. Það felst einnig í valdeflingu sem leiðir til sjálfshjálpar þeirra sem starfað er með og í því að tala máli þeirra sem í nauðum eru staddir svo samfélagið taki tillit til þarfa þeirra og réttinda og að gripið verði til aðgerða sem breyta lífsmöguleikum þeirra til hins betra. Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins starfa með prestum og djáknum, félagsþjónustu sveitarfélaga, öðrum mannúðarsamtökum, stofnunum og ráðuneytum að úrlausn verkefna en ekkert er skipulagt án þess að notendur þjónustunnar séu hafðir með í ráðum. Félagsráðgjafar og notendur þjónustu Hjálparstarfsins taka þátt í fjölbreyttu samstarfi til að sporna gegn fátækt og félagslegri einangrun, stuðla að opinni umræðu og þrýsta á stjórnvöld um að takast á við fátækt á árangursríkan hátt.

Styrkja