Þegar ég fékk tölvupóst um að ég væri að fara í starfsnám í Hjálparstarfi kirkjunnar voru fyrstu viðbrögð mín að mig langaði ekki að fara. Mér þótti það ekki nægilega spennandi. Eftir stutta umhugsun varð ég þó spennt, spennt að fara út í óvissuna og fá tækifæri til að starfa án þess að vera bundin við regluverk yfirvalda.

Sem nemi var ég skuggi Vilborgar, kennara míns. Við fórum á mánudögum að sauma með konum sem hafa flúið eigið land. Þær tóku á móti mér eins og ég hefði alltaf verið þarna, knúsuðu mig hæ fyrsta daginn. Flestar voru spænskumælandi og margar töluðu farsí, þær komu oft með góðgæti frá sínu heimalandi sem var mjög spennandi að smakka. Saumaverkefnið er eitt það fallegasta sem ég veit um. Þarna hittast konur sem hafa kannski aldrei séð saumavél, fara á námskeið og eru í dag að selja saumavörurnar sínar. Þær eru að læra íslensku og reyna að tala hana. Það er svo gaman að sjá hvernig trú þeirra á eigin getu eykst á hverjum degi bæði í íslensku og saumunum. Það mun styrkja þær til að sækja áframhaldandi námskeið og einfalda sér leiðina inn í samfélagið.

Stjórnlausar aðstæður

Á þriðjudögum vann ég í Skjólinu. Þar er unnið þýðingarmikið starf til að valdefla konur sem eru heimilislausar og/eða búa við óöruggar aðstæður. Í Skjólinu hafa þær möguleika til að hafa eitthvað um líf sitt að segja í annars stjórnlausum aðstæðum. Mér þótti virkilega áhugavert og gaman að fá að hitta þær og kynnast þeirra veruleika. Ég fékk líka tækifæri til að fara með Vorteymi Reykjavíkurborgar og kynnast aðstæðum heimilislausra enn betur. Ég hélt ég vissi eitthvað um þennan málaflokk en það kom í ljós að ég vissi í raun ekki neitt. Eftir þessa reynslu jókst þekking mín og skilningur á þessum málum verulega.

Öðlaðist innsýn

Hjálparstarfið sinnir miklu fjölbreyttari verkefnum en ég átti von á. Valdeflandi hópastarf, aðstoð með matarkaup, lyfjakaup, föt og fjölmargt annað. Ég sat einnig fundi með Velferðarvaktinni sem Hjálparstarfið á aðild að og er að vinna gríðarlega mikilvægt starf.

Fyrir mig sem verðandi félagsráðgjafa er mikilvægt að þekkja víddir samfélagsins og geta fundið lausnir. Líkt og fram kemur í siðareglum félagsráðgjafa: Markmið félagsráðgjafar er að vinna að lausn félagslegra og persónulegra vandamála og sporna við félagslegu ranglæti. Kennarinn minn, hún Vilborg, er frábær í sínu starfi og vinnur svo sannarlega eftir þessum reglum. Heimur minn opnaðist, ég tókst á við eigin fordóma og þekkingarleysi en öðlaðist innsýn sem mun styrkja mig í mínu starfi, hvar sem það verður.

Ingunn Lára Magnúsdóttir, félagsráðgjafarnemi

Styrkja