Fyrsta kórónuveirusmit var staðfest í Eþíópíu þann 13. mars síðastliðinn. Í lok júlí voru staðfest smit tæplega 16.000 talsins og 253 höfðu þá látist úr sjúkdómnum í landinu þar sem búa um 110 milljónir íbúa. Stjórnvöld óttast að ástandið eigi eftir versna enn frekar þar sem erfitt sé að hefta útbreiðslu veirunnar.

Á verkefnasvæði Hjálparstarfs kirkjunnar í Sómalífylki hefur starfsfólk verkefnisins breytt verklagi og viðheldur tveggja metra fjarlægðarbili í samskiptum sín á milli og við fólkið sem þjónustunnar nýtur. Handsápu og vatnsbrúsum hefur verið dreift á svæðinu og upplýsingaskilti hafa verið sett upp um nauðsyn smitvarna. Þá hafa upplýsingafundir verið haldnir með fólkinu og starfsfólk farið um svæðið með gjallarhorn og hvatt fólk til að viðhalda fjarlægð og þvo hendur eins og mögulegt er.

Stærsta verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í þróunarsamvinnu er með sárafátæku fólki sem býr á miklum þurrkasvæðum í Sómalífylki í Eþíópíu. Meginmarkmið verkefnisins eru að bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni, að fólkið geti aukið fæðuöryggi sitt með umhverfisvernd og bættum aðferðum í landbúnaði og að styrkja stöðu kvenna, samfélaginu öllu til farsældar. Verkefnið hefur verið í samstarfi við Lútherska heimssambandið í Eþíópíu með dyggum stuðningi frá einstaklingum og utanríkisráðuneytinu frá árinu 2007 eða í rúm 13 ár.

Eftir 10 ára árangursríkt starf í Jijigahéraði, færðum við aðstoðina í byrjun árs 2018 yfir til fólksins í Kebrebeyahhéraði sem er enn austar í Sómalífylki. Sem fyrr er áhersla lögð á að auka aðgengi að vatni, bæta fæðuöryggi meðal annars með umhverfisvernd, veita konum tækifæri til sjálfstæðis og stuðla að auknu jafnrétti á svæðinu. Verkefnið nær til 10.000 manns á þremur árum. Í júní síðastliðnum fengum við svo þau gleðilegu tíðindi að utanríkisráðuneytið hefði samþykkt styrkbeiðni Hjálparstarfsins til að halda starfinu áfram til ársins 2024.

Styrkja