Undanfarnar vikur hefur Hjálparstarf kirkjunnar undirbúið viðbragð sitt vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Líkt og systurstofnanir Hjálparstarfsins á Norðurlöndunum og víðar mun ákalli ACT Alliance – Alþjóðlegs hjálparstarfi kirkna – um að styrkja mannúðaraðstoð á svæðinu verða svarað. Alkunna er að neyðin er mikil og þá fyrst og fremst vegna átakanna á Gasaströndinni, en einnig í Jerúsalem og á Vesturbakkanum.
Þann 25. október síðastliðinn sendi ACT Alliance frá sér alþjóðlega beiðni um aðstoð við þá sem eiga um sárt að binda vegna átakanna sem nú hafa staðið í á þriðja mánuð. Innan Act Alliance eru nú fleiri en 140 kirkjutengdar hjálparstofnanir sem starfa í yfir 120 löndum, bæði í þróunarsamvinnu og við að veita mannúðaraðstoð. Neyðaraðstoð Act Alliance hófst á Gasa 1. nóvember með formlegum hætti en hófst þó strax á fyrstu dögum átakanna eða þegar mögulegt var. Verkefnið er hugsað til næstu tveggja ára en þó ljóst að afleiðingar átakanna eru svo alvarlegar að neyðaraðstoð við almenna borgara og uppbygging á átakasvæðunum mun taka mun lengri tíma.
Hjálparstarf kirkjunnar stendur fyrir valgreiðslusöfnun meðal almennings nú á aðventunni. Þar safnar Hjálparstarfið til að geta aðstoðað þau um jólin sem búa við fátækt hér innanlands en einnig til að fjármagna verkefni Hjálparstarfsins erlendis. Eins og fyrr hefur almenningur brugðist vel við söfnun Hjálparstarfsins. Því gefst tækifæri til að styðja við neyðaraðstoð ACT Alliance í Palestínu og þá sérstaklega á Gasa þar sem átökin eru hörðust. Stuðningur Hjálparstarfsins nýtist til kaupa á helstu nauðsynjum; vatni, mat, lyfjum og öðrum lækningavörum og til að veita áfallahjálp og sálgæslu. Til lengri tíma litið er horft til þess að aðstoða almenning við að byggja upp innviði og líf sitt að nýju.
Hjálparstarf kirkjunnar er hjálparstofnun sem starfrækir mannúðar- og hjálparstarf á Íslandi og erlendis. Sem hjálparstofnun einbeitum við okkur að því að veita þeim aðstoð sem eiga um sárt að binda. Hjálparstarfið tekur því ekki afstöðu til deilumála stríðandi fylkinga. Fórnarlömbin í þessum hildarleik fyrir botni Miðjarðarhafs eru almennir borgarar og Hjálparstarfið mun gera sitt ítrasta til að lina þjáningar þeirra.