Kæru vinir!
Á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar hefur valdeflingarverkefnið Saumó – tau með tilgang þar og er fyrir konur úr hópi innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda sem dvelja hér á landi og eru útsettar fyrir félagslegri einangrun. Í hnotskurn má lýsa verkefninu svo: Konurnar endurvinna efni sem almenningur hefur gefið og læra að sauma úr því margvíslega nytjahluti. Við saumavinnuna kynnast konurnar betur en þær koma víða að og hafa ólíkan bakgrunn. Verkefnið stuðlar þannig að aukinni virkni kvennanna og félagsskap þeirra í milli um leið.
Konurnar hafa á undanförnum vikum meðal annars saumað margnota jólapoka í hundruða vís en þá má nýta í stað gjafapappírs. Hillur á skrifstofum Hjálparstarfsins svigna nú undan pokum sem henta vel undir jólagjafirnar og eru til sölu fyrir þá sem vilja klæða gjafir til vina og vandamanna í jólabúning sem er engum líkur.
Að sögn Vilborgar Oddsdóttur, félagsráðgjafa og umsjónarkonu innlendra verkefna hjá Hjálparstarfinu, er verkefnið unnið í samvinnu við Hjálpræðisherinn og hittist hópurinn upphaflega einu sinni í viku. Vegna mikillar eftirspurnar var ekki umflúið að skipta hópnum upp og komu konurnar saman á mánudögum og fimmtudögum. Félagsráðgjafi Hjálparstarfsins hafði umsjón með mánudagshópnum en Hjálpræðisherinn í Reykjavík sá um samveruna á fimmtudögum.
Á nýliðnu starfsári var gengið skrefinu lengra; starfið aukið og samverustundum hópsins fjölgað í þrjár á viku. Vegna aukins umfangs verkefnisins var Hildur Loftsdóttir ráðin sem verkefnastýra Hjálparstarfsins og hóf hún störf í janúar síðastliðnum. Til viðbótar við saumavinnuna var í vetur tekin upp íslenskukennsla, skartgripagerð og fjölbreyttari hannyrðir. Nú er svo komið að verkefnið hefur fest sig kyrfilega í sessi.
Sjón er sögu ríkari. Komið í heimsókn til Hjálparstarfsins á Háaleitisbraut 66 (neðri hæð Grensáskirkju. Jólapokar og margt, margt fleira í boði. Skrifstofan er opin alla virka daga klukkan 10 – 15.