Þegar ég rölti í vinnuna á dimmum janúarmorgni þá nýt ég þess að heyra brakið í snjónum. Ég hugsa um hvað ég sé heppin að hafa góða heilsu og geta gengið í vinnuna. Ég hef líka efni á fatnaði sem heldur mér heitri og ég á góða skó til að ösla snjóinn á. Ég veit, að þrátt fyrir kuldann úti, þá bíður mín funheit skrifstofan, skemmtileg vinna, góðir vinnufélagar, kaffibolli og spjall.
Á göngunni fer ég að hugsa til þess, að þegar ég kem aftur heim þurfi ég að drífa mig í sturtu og vera svo klár í að fara að hitta hóp kvenna og njóta þess með þeim að spjalla og borða góðan mat. Já, og svo man ég það að ég þarf að lesa smávegis fyrir námskeið sem ég er á þessa dagana.
Stúlka í Malaví
Þegar ég fer að nálgast vinnuna þá man ég líka eftir því að ég þarf að hringja í manninn minn til að minna hann á að millifæra peninga til vinafólks okkar í Malaví. Það er kominn tími á að greiða vorönnina fyrir dóttur þeirra sem er í 8. Bekk, því til að eiga möguleika á góðri menntun í Malaví þarf að greiða skólagjöld sem er ekki á allra færi, því miður.
Reyndar er skóli stúlkunnar lokaður þessa dagana vegna kólerufaraldurs í höfuðborginni eins og oft gerist á regntímanum þegar drykkjarvatnið mengast, en það er vonandi tímabundið ástand.
Þetta vinafólk okkar tilheyrir millistétt í Malaví. Þau hafa sæmilega menntun, búa í eigin húsi í höfuðborginni, eins og fyrr segir, en þarna er ekkert rennandi vatn og heldur engin fráveita og því er ekkert klósett eins og við þekkjum; aðeins kamar út í garði. Í húsinu er heldur engin eldunaraðstaða og því fer matargerðin fram utandyra á hlóðum þar sem kynt er undir með spreki og öðru lauslegu. Það er nefnilega ekkert hægt að treysta á rafmagnið, það er skammtað og því geta heilu hverfin verið rafmagnslaus tímunum saman án nokkurs fyrirvara.
Þetta vinafólk okkar á akur skammt fyrir utan borgina þar sem þau rækta matjurtir sér til matar en þar er ekki nein áveita og því er aðeins möguleiki á einni árlegri uppskeru þrátt fyrir veðursæld. Ekki bætir úr skák að undanfarið hefur verð á tilbúnum áburði margfaldast þannig að það svarar tæplega kostnaði að kaupa hann, en á sama tíma þá er brýnn skortur á matvælum í Malaví. Og heilbrigðiskerfið þar í landi er ekki upp á marga fiska.
Erum við hamingjusamari en þau?
Á okkar lífsskilyrðum og þessa vinafólks okkar er gríðarlegur munur. Við búum í einu ríkasta landi í heimi en þau í einu af þeim allra fátækastu. Okkar velsældarkvarðar og skilgreining á hugtakinu hagsæld geta engan veginn átt við þarna niðri í Malaví. En erum við hamingjusamari en þau? Það þarf ekkert að vera, en við erum í öruggara umhverfi, lifum líklega lengur og við betri heilsu. Og við höfum meiri möguleika á að mennta okkur til þeirra starfa sem við veljum, þannig að draumar okkar eru líklegri til að rætast. Við vitum hvað næsti dagur hefur upp á að bjóða og getum lagt höfuð á kodda á kvöldin án þess að hafa stórar áhyggjur af því hvort að grunnþættir okkar samfélags virki næsta dag eða ekki.
En ég veit að hér á landi er líka mikil munur á þeim sem eru ríkir og fátækir. Því þarf að breyta og að það eru ekki allir sem búa við það sama öryggi og ég geri.
Alls kyns greinar og skýrslur
Þegar ég var beðin um að flytja þennan pistil* um hagsæld þá fannst mér fyrst liggja beinast við að leggjast í rannsóknir og finna til allskyns greinar og skýrslur um hagsæld og það hvernig hún er mæld og metin.
En vangaveltur mínar á leið í vinnu voru í raun allt sem ég vildi segja um hvað hagsæld innibæri; félagslegt öryggi, gott heilbrigðiskerfi, umhverfisþætti og góðan efnahag.
En við þurfum kannski að endurhugsa hvernig hið góða, eftirsóknarverða líf á vera og hvaða leið við, sem samfélag og einstaklingar, veljum til öðlast það. Er ekki kominn tími til að íslenska þjóðin hætti að vera í eilífum vertíðargír og vinni alltaf út frá því að þetta reddist. Að við hættum að hugsa í skammtímalausnum og setjum frekar mælanleg markmið til framtíðar.
Eða erum við ef til vill föst í þeirri hugsun að velferð og hamingja sé aðeins til staðar svo lengi sem við höfum stöðugan hagvöxt og aukinn kaupmátt? Er mælikvarðinn of fastur á hvað við getum eignast í stað þess að njóta þess sem við þegar höfum; hvort sem það er heilsan okkar, fjölskyldan, vinir eða stórkostleg náttúran í kringum okkur. Verður líf okkar betra ef við eignumst meira og meira en töpum á leið okkar því dýrmætasta sem við eigum, sem er að vera hluti af samfélagi þar sem allir skipta máli og allir njóta sömu réttinda.
Vilborg Oddsdóttir, verkefnastýra innlendra verkefna Hjálparstarfs kirkjunnar. *Pistillinn var frumfluttur í þættinum Uppiástand á Rúv þann 19. janúar sl.
Ef þú vilt lesa um innlent sem erlent starf Hjálparstarfsins má finna nýja fréttabréfið hér.
Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?