Nú þegar hálfur mánuður er liðinn frá því að jarðskjálftarnir miklu riðu yfir Tyrkland og Sýrland er tekið að skýrast hversu gríðarleg eyðileggingin er í löndunum tveimur. Það íbúðarhúsnæði sem er ónýtt, aðeins Tyrklands megin á jarðskjálftasvæðinu, jafngildir margfalt meiru en öllu íbúðarhúsnæði sem stendur uppi á Íslandi.

Tyrknesk yfirvöld greindu frá því í tilkynningu í gær að 106.000 byggingar eru ónýtar með öllu, og þá taldar þær sem hrundu til jarðar strax eða eru svo illa farnar eftir skjálftana að niðurrif þeirra er óumflýjanlegt. Af þessum 106.000 byggingum hrundu tæplega 21.000 þeirra til grunna við skjálftana 6. febrúar. Byggingarnar sem um ræðir eru að uppistöðu íbúðarhúsnæði.

158.939 íbúðir á Íslandi

Tölfræði tyrkneskra yfirvalda er ekki síst ógnvænleg í því ljósi að í fyrrnefndum byggingum voru 384.500 íbúðir sem eru ónýtar. Ef þessi tölfræði er sett í íslenskt samhengi má vísa til Fasteignaskrár Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þar sem segir að fjöldi íbúða á Íslandi í árslok 2022 var 158.939.

Ljóst er að eyðileggingin er einnig gríðarleg í Sýrlandi. Greint hefur verið frá milljónum manna sem eiga hvergi höfði sínu að halla. Hins vegar berast litlar upplýsingar frá jarðskjálftasvæðunum í Sýrlandi um umfang eyðileggingarinnar.

Fram hefur komið að þegar hafa yfir 46.000 manns fundist látin. Tyrknesk yfirvöld hafa greint frá því að um 41.000 manns hafa fundist en nýjar upplýsingar frá Sýrlandi um látna og slasaða hafa ekki verið birtar í nokkra daga. Hvorki tyrknesk yfirvöld né sýrlensk hafa gefið út hversu margra er saknað.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, (WHO) telur að 26 milljónir manna í löndunum tveimur eigi um sárt að binda og þurfi á neyðaraðstoð að halda.

Hægt er að leggja neyðarsöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar lið með eftirfarandi hætti:

Hægt er að gefa stakt framlag hér.

Leggja inn á söfnunarreikning númer 0334-26-886; kennitala: 450670-0499

Hringja í söfnunarsímann 907 2003 (2500 krónur)

Styrkja