Í sumar ákvað ég að fara ekki til útlanda í frí eins og sólarþyrstir samlandar mínir heldur ákvað ég að ferðast um Ísland eins og útlendur ferðamaður. Það komu vissulega dagar þar sem ég hálfpartinn sá eftir þeirri ákvörðun eins og til dæmis þegar ég varð veðurteppt vegna vindstyrks á Suðurlandi! Svo rigndi hressilega nokkra daga og lítið annað í boði en að heimsækja sundlaugar á þeim stöðum sem ég fór um.
Í heita pottinum reyndi ég að hlera hjá heimafólki hvað væri skemmtilegt á seyði á svæðinu. Í eitt slíkt skiptið hitti ég í pottinum konu á besta aldri. Hún gat sagt mér allt um skemmtilega upplifun í nágrenninu þótt hún reyndist vera aðkomumanneskja eins og ég. Við spjölluðum um heima og geima og ég sagði henni við hvað ég starfaði. Þá sagði hún mér nokkuð sem hefur lifað með mér síðan.
Hún sagði mér að hún væri í krefjandi þjónustustarfi þar sem hún ræddi mikið við fólk sem er nýkomið til Íslands. Hún sagði mér að til þess að gera líf sitt betra hefði hún ákveðið að efla með sér jákvætt viðhorf og framkomu við fólkið sem hún veitir þjónustu. „Fólkið sem ég hitti er oft ráðvillt og reitt en í staðinn fyrir að mæta því með köldu kerfisviðbragði leitast ég við að hlusta á það sem býr að baki reiðinni. Og þegar ég geri það fer fólkinu strax að líða betur og það slakar á,“ sagði hún.
Við héldum áfram að spjalla og hún sagði mér að barnabörnin hennar byggju öll úti á landi en hún í Reykjavík. Hún saknar barnanna en sagði svo að það sem hefði bjargað henni var að hún ákvað að gerast nokkurs konar amma tveggja barna frá Afganistan sem hér njóta hælis um leið og hún aðstoðar foreldra barnanna við að fóta sig í kerfinu. Hún sagði mér að hún hefði í raun hjálpað sjálfri sér mest með því að ákveða að gerast bakhjarl fjölskyldunnar.
Konan staðfesti fyrir mér það sem rannsóknir sýna fram á en það eru mjög jákvæð tengsl milli hjálpsemi og góðrar líkamlegrar og andlegrar heilsu, ekki síst þegar við erum komin á efri ár.
Við hjá Hjálparstarfi kirkjunnar þökkum kærlega öllum þeim sem leggja starfi okkar lið!
Vilt þú styrkja hjálparstarfið? Með því að gerast Hjálparliði hjálpar þú fólki sem býr við fátækt á Íslandi og í fátækustu samfélögum heims.