Í Úganda er Hjálparstarf kirkjunnar í samstarfi við samtökin Ugandan Youth Development Link, UYDEL, sem hafa áratuga reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfum höfuðborgarinnar Kampala og eru leiðandi í baráttunni gegn mansali og barnaþrælkun í landinu.
Í höfuðborginni reka samtökin smiðjur fyrir börn og ungmenni á aldrinum 13-24 ára og fjármagnar Hjálparstarf kirkjunnar starfið í þremur þeirra. Í smiðjunum þremur stunda um 500 unglingar nám ár hvert. Markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem það getur nýtt til að sjá sér farborða, að það taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina og að þau séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu.
Í smiðjunum geta unglingarnir valið sér ýmis svið og öðlast nægilega færni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, saumaskap og sápugerð. Einnig eru á dagskrá dans, leik- og sönglist og íþróttir. Mikið er lagt upp úr því að styrkja sjálfsmynd unglinganna sem koma úr ömurlegum aðstæðum í fátækrahverfunum.
Úganda er númer 166 af 191 ríkjum á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2023 en Ísland er þar númer þrjú. Listinn mælir lífskjör út frá lífslíkum, menntun, tekjum og jöfnuði. Í Úganda búa um 49 milljónir íbúa en helmingur þeirra er yngri en 16 ára gamall. Ungt fólk sem ekki hefur fengið tækifæri til skólagöngu flýr gjarnan fátæktina í sveitinni og heldur til höfuðborgarinnar í von um betra líf. Flestra bíður hins vegar lélegt skjól og ill meðferð í fátækrahverfi þar sem neyðin rekur þau til að taka þátt í glæpagengjum eða selja líkama sinn til að geta séð sér farborða. Börn og unglingar í höfuðborginni eru útsett fyrir misnotkun af ýmsu tagi og þau verða auðveldlega fíkniefnum að bráð.
Aðstæður ungs fólks í fátækrahverfum Kampala
- Ekkert rennandi vatn, engin sorphirða, engar almenningssamgöngur
- Húsin eru kofaskrifli sem varla halda vatni og vindum
- Stundum flæðir regnvatnið inn í kofana og með því skólp og sorp
- Salerni eru vandfundin
- Stundum er hægt að stelast í rafmagn og kveikja ljós
- Oftast er enginn skóli vegna peningaleysis
- Stundum selja ungmenni líkama sinn til að sjá fyrir sér og brauðfæða systkinin
- Örvænting ungmenna veldur því að mörg þeirra ganga til fylgilags við glæpagengi
- Þetta eru aðstæður sem skjólstæðingar Hjálparstarfsins í höfuðborg Úganda búa við, nauðugir viljugir.