Um þessar mundir gengur Malaví, sem er landlukt land í Suðaustur-Afríku, í gegnum erfiða efnahagskreppu með óðaverðbólgu og gjaldeyrisskorti sem kemur verst niður á þeim allra fátækustu í landinu.
Eftirköst af COVID-19, hækkandi vöru- og innflutningsverð vegna innrásar Rússa í Úkraínu, nátturuhamfarir vegna loftslagsbreytinga í sambland við mikinn skuldahalla ríkisins hefur valdið fjölþættum bráðavanda.
Þetta kemur fram í frétt utanríkisráðuneytisins sem segir frá því að í gær var skrifað undir samninga við nýstofnaðan körfusjóð Alþjóðabankans í þágu landsins en Ísland og Bandaríkin voru fyrst framlagsríkja til að greiða í sjóðinn. Ísland leggur til þrjár milljónir Bandaríkjadala fyrir tímabilið 2022-2024 en Bandaríkin 4,4 milljónir. Formleg athöfn og undirritun fór fram í fjármálaráðuneytinu í Lilongve, höfuðborg Malaví.
Að sögn Ingu Dóru Pétursdóttur forstöðukonu íslenska sendiráðsins hafa framlagsríki í Malaví unnið þétt með stjórnvöldum undanfarna mánuði en Ísland leiddi samráðshóp framlagsríkja sem hafa gefið fyrirheit um 50 milljóna dala stuðning í sjóðinn á næstu mánuðum.
„Sjóðurinn mun skapa öryggisnet fyrir fólk sem býr við sárafátækt með mánaðarlegum framlögum sem stjórnvöld veita í gegnum nýtt rafrænt stuðningskerfi en áætlað er að minnsta kostir fjórar milljónir Malava búi við alvarlegt fæðuóöryggi þessa mánuðina,“ segir Inga Dóra í frétt ráðuneytisins en í fréttinni segir jafnframt að í máli fjármálaráðherra Malaví í gær kom fram að stofnun sjóðsins marki vatnaskil í þróunarsamvinnu í Malaví.
Hjálparstarf kirkjunnar í Malaví
Nýlega undirritaði Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra rammasamninga við Hjálparstarf kirkjunnar um stuðning ráðuneytisins við verkefni á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Samningarnir eru í gildi til loka árs 2024. Samkvæmt samningunum leggur utanríkisráðuneytið til framlag sem nemur stórum hluta af kostnaði við skilgreind mannúðar- og þróunarverkefni. Á grundvelli þessara samninga undirbýr Hjálparstarf kirkjunnar nýtt þróunarsamvinnuverkefni í Malaví en starfssaga Hjálparstarfsins teygir sig all langt aftur.
Á árunum 2005 til 2014 studdi Hjálparstarfið sem snérist um vatnsöflun og betra lífsviðurværi fyrir um 900 fjölskyldur sjálfsþurftarbænda í 37 þorpum í Chikwawa héraði. Markmiðið með verkefninu var að auka aðgengi að hreinu vatni með því grafa brunna og kenna fólki að nýta vatn til að tryggja betur fæðuöryggi. Eins snéri verkefnið að því að byggja kamra og handþvottaaðstöðu og fræða um nauðsyn hreinlætis. Trjám var plantað og námskeið voru haldin um umhverfisvernd og sjálfbærni. Þá var jarðrækt þróuð með nýjum korntegundum og skepnuhald styrkt með því að bændur fengu geitur og hænur til að bæta lífsafkomu sína.
Chikwawa hérað
Nýtt verkefni Hjálparstarfsins í Malaví, sem byggir á rammasamningum stofnunarinnar og ráðuneytisins, er nú í undirbúningi og ber Hjálparstarfið niður á sama starfssvæði og áður var nefnt – í Chikwawa héraði.
Markmið verkefnisins er að aðstoða tæplega 42.000 manns á 9.500 heimilum við að auka viðnámsþrótt samfélagsins gegn öfgum í veðri af völdum loftslagsbreytinga og tryggja lífsviðurværi og fæðuöryggi fólks eins vel og mögulegt er. Þar er ekki síst horft til þess að grípa til varna þar sem veðuröfgar ganga harkalega á ræktarland, bæði vegna flóða og þurrka.
Hér getur þú lesið um starf Hjálparstarfsins erlendis.
Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?