Jane Birungi er búsett í þorpinu Baale í sveitarfélaginu Rakai, ekki fjarri borginni Lyantonde í suðvesturhluta Úganda. Jane er 38 ára gömul og býr með börnum og barnabörnum sínum – en af þeim fimm sækja þrjú þeirra skóla. Hún er einstæð og HIV smituð.
Jane missti eiginmann sinn fyrir mörgum árum úr alnæmi og tilvera fjölskyldunnar hefur verið afar erfið síðan. Áður en hún fékk hús afhent frá Hjálparstarfinu bjó fjölskyldan við ömurlegar aðstæður í hripleku hreisi. Engin salernisaðstaða var þar aðgengileg frekar en nokkuð annað sem telst til lágmarks þæginda.
Suma daga er enginn matur
Þá og nú getur fjölskyldan leyft sér að borða eina til tvær máltíðir á dag – en það koma líka dagar þar sem enginn matur er á borðum þeirra. Skólaganga barnanna er stopul þar sem Jane hefur ekki getað greitt skólagjöld og skólagögn – en þetta virðist eiga við um flestar fjölskyldur á svæðinu sem eru í líkri stöðu og hún. Jane hefur enga fasta innkomu sem veldur tímabundnum og langvarandi erfiðleikum við að kaupa nauðsynjar; mat, greiða fyrir skólagöngu, fatnað og fleira. Hún fær af og til íhlaupavinnu en vegna veikinda er hún ófær um fasta vinnu sem kemur niður á öllu daglegu lífi fjölskyldunnar.
Fjórar geitur
Í síðustu vettvangsferð Hjálparstarfsins til Úganda gafst tækifæri til að heimsækja Jane og börnin hennar þar sem þau hafa komið sér vel fyrir í nýja húsinu. Húsið er staðsett í ægifagurri sveit með útsýni yfir stöðuvötn og gróðursælar hæðir og dali. Jane tók hópnum fagnandi og sýndi okkur stolt hvaða breytingar hafa orðið á högum fjölskyldunnar. Eftir innlit í nýja húsið leiddi Jane hópinn í haga þar rétt hjá þar sem fjórar geitur voru á beit, en ásamt húsinu fékk hún á sama tíma þrjár geitur til að byggja undir afkomu sína. Nú eru geiturnar orðnar fjórar og kiðlingar væntanlegir, sem til stendur að selja á markaði. Eins liggur svín í stíu sinni við svínslega iðju, en Jane áskotnaðist einmitt þann verðmæta grip í skiptum á grís fyrir kiðlinga.
„Við fáum eina máltíð á dag og það er alltaf maísgrautur. Maís fæ ég með því að borga fyrir heimild til að tína hann á jörð nágranna minna. Við borðum ekkert kjöt, grænmeti eða annað nema kannski í eitt skipti á ári,“ segir Jane sem bætir við að hennar draumur sé að eignast smá landskika til viðbótar við þá spildu sem hún þegar á, en er of lítil fyrir nokkra alvöru ræktun. Í sveitinni hennar eru nefnilega möguleikar til að hafa það ágætt en þeir takmarkast við eign á jarðnæði.
„En það er samt allt gott. Allt er gott því nú eigum við fallegt hús. Engar spurningar,“ segir Jane þegar innt er eftir því hvort hana vanti eitthvað sérstakt. Hún segist fá lyf ókeypis frá ríkinu og þau eru sótt fyrir hana til bæjarins ef þarf.
„Svo hafa elstu synir mínir öðlast draum um að verða smiðir. Þeir fylgdust með því þegar húsið okkar var byggt og þeir eru ákveðnir í að feta í spor mannanna sem byggðu húsið,“ segir Jane.