Þegar þessi orð eru skrifuð eru tæpar tvær vikur til kosninga á Íslandi. Stjórnmálaflokkar og fulltrúar þeirra keppast um að koma málefnaáherslum sínum á framfæri og kynna lausnir sínar á vandamálum sem blasa við í íslensku samfélagi. Kynna sig sem afl til breytingar. Þetta er eðlilegur framgangur í lýðræðisþjóðfélagi og hver og einn kýs eftir sínu hjarta. Hvert atkvæði skiptir máli og mörg atkvæði til sama stjórnmálaflokks tryggir áhrif þess flokks, þeim mun fleiri þeim mun betra segja allir flokkarnir.
Hjálparstarf kirkjunnar er ekki stjórnmálaafl og skiptir sér ekki af flokkapólitík. En við teljum okkur samt afl til breytinga, erum á vissan hátt í framboði, viljum kynna starf okkar og hvetja þig til að styrkja það. Við viljum kynna lausnir og leiðir til að gera heiminn betri. Þú getur lesið um verkefnin okkar í fréttabréfum og starfsskýrslum Hjálparstarfsins sem þú finnur á heimasíðunni okkar.
Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna – ACT Alliance, sem 150 kirkjur og kirkjutengdar stofnanir sem starfa í 127 löndum, eru aðilar að. Undirritaður var nýlega á Allsherjarþingi samtakanna í Yogyakarta í Indónesíu. Í megin skilaboðum þingsins segir meðal annars: „Það hefur aldrei verið brýnna en nú að samtökin séu leiðarljós vonar og standi vörð um mannréttindi, mannlega reisn, réttlæti, frið og umhverfisvernd.“ Jafnframt segir: „Langvarandi ófriður og krísur hafa ógnað mannréttindum, jafnræði og jafnrétti kynjanna. Saman viljum við vinna að félags- og efnahagslegu réttlæti á tímum loftslagsbreytinga.”
Með ACT er Hjálparstarfið hluti af alþjóðlegu afli sem vill hafa áhrif til hins betra. Í gegnum ACT styðjum við mannúðaraðstoð meðal annars á Gasa, Súdan og í Úkraínu og nágrannalöndum. Við krefjumst þess að alþjóðalög um mannúðaraðstoð séu virt svo saklaust fólk fái lífsnauðsynlega hjálp.
Hjálparstarfið leggur ríka áherslu á að aðstoða fjölskyldufólk sem býr við kröpp kjör fyrir jólin. Við viljum að allar fjölskyldur geti glaðst, gefið gjafir og átt góðar stundir með ættingjum og vinum, ekki síst börnin. Það er brýnt að þau upplifi öll gleði og frið.
Aðstoðin sem Hjálparstarfið veitir tekur mið af aðstæðum hvers og eins. Hún er fyrst og fremst í formi inneignarkorta fyrir matvöru en fólk í brynni þörf fær einnig jólagjafir fyrir börnin og sparifatnað. Fyrir síðustu jól fengu 1.724 fjölskyldur um allt land stuðning (um 4.600 einstaklingar). Við eigum von á að svipaður fjöldi neyðist til að leita til okkar fyrir þessi jól.
Ef þú vilt styðja þetta starf, heima og að heiman, getur þú greitt valgreiðslu í heimabankanum þinum. Því fleiri sem styðja okkur, því öflugra verður starf okkar fyrir betri heimi.
Takk fyrir stuðninginn og gleðileg jól,
Bjarni Gíslason,
framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar