Í sumar sem leið tóku sex fjölskyldur þátt í hópastarfi á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar sem ber heitið Ræktaðu garðinn þinn. Þátttakendurnir fengu pláss í Seljagarði í Breiðholti til að rækta sitt eigið grænmeti en gildi verkefnisins felst ekki síst í útveru, hreyfingu og gæðasamverustundum fjölskyldnanna sem í því tóku þátt.

Þóra Hinriksdóttir garðyrkjufræðinemi leiðbeindi þátttakendum en í Seljagarði er frábær aðstaða og gott samfélag. Þar er hægt að rækta salat, kryddjurtir, kartöflur, gulrætur, rabarbara og fleira.

Sakina er ein þeirra sem ræktaði sitt eigið grænmeti í Seljagarði í sumar. Undir lok námskeiðs þegar þátttakendur komu saman og matreiddu úr hluta uppskerunnar eldaði Sakina rabarbara- og linsubaunasúpu sem hún sagði vinsæla í Afganistan. Sakina kom sjálf til Íslands frá Afganistan fyrir nokkrum árum og talar nú mjög góða íslensku. Það þakkar hún helst nágrönnum sínum sem hafa alltaf talað við hana á íslensku.

Uppskrift að rabarbara- og linsubaunasúpu frá Afganistan:

1 bolli rauðar linsubaunir

200 grömm smjör

3 laukar

6 gulrætur

2 miðlungsstórir rabarbarar

1 lítri vatn (smakka til og bæta við eftir smekk)

6 tómatar

koriander, salt og pipar eftir smekk

Látið linsubaunirnar liggja í bleyti í 15 mínútur, svissið lauk og gulrætur upp úr smjörinu, bætið rabarbara saman við og því næst baununum, tómötunum og koríander. Saltið og piprið eftir smekk og bætið vatninu út í. Sjóðið í 25 mínútur.  

 

Hér má lesa allt um innanlandsstarf Hjálparstarfs kirkjunnar.

Vilt þú styrkja hjálparstarfið? Með því að gerast Hjálparliði hjálpar þú fólki sem býr við fátækt á Íslandi og í fátækustu samfélögum heims.

Styrkja