Í þróunarsamvinnuverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Rakaí- og Lyantondehéruðum í Suður-Úganda er markmiðið að sinna barnafjölskyldum sem búa við örbirgð og slæmar aðstæður vegna HIV/ alnæmis. Foreldrarnir hafa annað hvort látist af völdum sjúkdómsins eða eru mjög veikburða og geta því ekki séð börnum sínum farborða.
Fjölskyldurnar búa í hreysum og hafa hvorki nægan aðgang að vatni né hreinlætisaðstöðu. Fyrir tilstilli verkefnis Hjálparstarfsins fær hver fjölskylda múrsteinshús, kamar, vatnstank og eldaskála. Einnig fær fjölskyldan geitur og stuðning til að rækta grænmetisgarð.
Leiðtogi í samfélaginu
Harriet er ein af þeim sem fékk aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar á svæðinu. Árið 2010 lá hún alvarlega veik á sjúkrahúsi með HIV-smit. Hún hafði misst eiginmann sinn úr alnæmi og hélt að hún ætti stutt eftir ólifað. Þá sagði hún við starfsfólk verkefnisins:
„Ég get dáið sátt því ég veit að börnin mín fjögur eru komin í öruggt skjól“.
Árið 2019 hitti Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins, Harriet sem þá var komin í sveitarstjórn þar sem hún beitir sér fyrir bættum hag HIV-smitaðra og barna þeirra.
„Sjáið mig bara, ég var búin að missa alla von en nú eru börnin mín orðin stór og ég er leiðtogi í samfélaginu,“ sagði Harriet við Bjarna við það tækifæri.
Hjálparstarfið hefur starfað með innlendum hjálparsamtökum í sveitahéruðum í sunnanverðu landinu í 20 ár. Á hverju ári er fleiri fjölskyldum hjálpað þannig að börnin sem búa við sárafátækt fái húsaskjól, næringarríkari fæðu og tækifæri til mannsæmandi lífs.
Hér getur þú lesið um starf Hjálparstarfsins erlendis.
Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?