Hingað í morgunsárið kom hann Elmar ásamt mömmu sinni. Erindi hans til Hjálparstarfsins var að færa okkur fallega gjöf sem hann bað um að yrði færð barni á hans aldri sem býr við fátækt.
Aðspurður sagði Elmar okkur að það væri bara alls ekki í lagi að börn séu skilin út undan; öll börn ættu að fá pakka.
„Ég kom til ykkar af því að hinir krakkarnir fá ekki gjafir,“ sagði Elmar.
Mamma hans sagði okkur líka að þegar útskýrt var fyrir honum að allir krakkar eiga ekki foreldra sem geta keypt gjafir þá vildi hann fara tafarlaust og kaupa fallega gjöf og koma henni á réttan stað.
„Svo við skelltum okkur bara í bæinn og keyptum pakka.“
Það er okkur heiður og ánægja að koma gjöfinni hans Elmars á góðan stað.
Við þau mæðgin segjum við gleðileg jól og kærar þakkir fyrir komuna.