Skjólið, opið hús Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir konur,  hefur verið griðastaður 95 kvenna á aldrinum 18 – 71 árs í lengri eða skemmri tíma frá því það opnaði formlega 25. febrúar 2021.

Heimspekilegar samræður skapast oft í Skjólinu um tilgang lífsins, lestur bóka sem geta farið með okkur um allan heiminn og í aðstæður sem við þekkjum ekki, rétt okkar til lífs og þekkingar.  „Í sífelldri leit að sjálfum sér getur maður týnt sér,“ eins og ein konan sagði í einum af þessum samræðum. Þessar samræður eru jafn mikilvægar og sú alúð sem starfskonur Skjólsins sýna þeim. Konurnar fá grunnþörfum sínum mætt í formi næringar, hvíldar, hreinlætis og skjóls.

Heimilislausa konan býr oft við miklar og flóknar þjónustuþarfir og hefur hún því getað nýtt Skjólið til að hitta félagsráðgjafa frá því sveitarfélagi sem hún sækir þjónustu til, Vettvangs- og ráðgjafateymi Reykjavíkurborgar (VoR teymi), lögreglu, lækni, hjúkrunarfræðing, Frú Ragnheiði, Ylju – neyslurými og Barka, pólskra samtaka sem veita stuðning og ráðgjöf við heimilislaust fólk af erlendum uppruna. Allt eftir því hvers hún óskar.

Rósa Björg Brynjarsdóttir, umsjónarkona Skjólsins.

Þjónustuþarfir heimilislausu konunnar snúa oftar en ekki að vímuefnavanda og/eða geðrænum vanda en „neyslan er ekki vandamálið, það er ástæðan fyrir henni sem er vandamálið,“ eins og ein konan orðaði það. Ástæðan fyrir notkun vímuefna er í flestum tilfellum þörfin fyrir að deyfa áföllin sem hún hefur lent í.

Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá opnun Skjólsins hefur þörfin fyrir það komið berlega í ljós. Konurnar eru þakklátar fyrir að fá að vera þær sjálfar með öllum sínum kostum og göllum en starfskonur Skjólsins leggja metnað sinn í að mæta þeim þar sem þær eru staddar hverju sinni.

Heimilislausa konan á fjölskyldu og vini, áhugaverða sögu, fortíð fulla af góðum og slæmum minningum, nútíð sem hún reynir af fremsta megni að komast í gegnum og óráðna framtíð eins og við öll.

Heimilislausa konan er ég og þú en hefur hrasað einhvers staðar á leiðinni. Fordómar gagnvart konum sem glíma við heimilisleysi spretta oft vegna fáfræði um aðstæður og bakgrunn þeirra sem standa í þessum sporum.

Heimilislausa konan er þó bara manneskja eins og ég og þú, hún hefur bara oft þurft að upplifa erfiða hluti og stór áföll sem hafa gert það að verkum að hlutirnir hafa ekki þróast eins og best verður á kosið.

Heimilislausa konan er úrræðagóð en hún þarf oft að finna leiðir til að komast af, hún finnur til og býr yfir samkennd.

Heimilislausa konan vill vera samþykkt sem hluti af samfélaginu.

Vilt þú styrkja Skjólið?
Reikn: 301-26-227
Kennitala: 450670-0499

Styrkja