Hjálparstarf kirkjunnar hefur á árinu sent rúmlega 56,5 milljón króna framlag Íslendinga til mannúðaraðstoðar við flóttafólk frá Úkraínu. Þar af lagði utanríkisráðuneytið til 30 milljónir, Þroskahjálp 500 þúsund krónur og styrktarsamfélag Hjálparstarfsins 26 milljónir króna.
Framlagið var sent til verkefna Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins, LWF/DWS, í Póllandi sem rekur meðal annars sex miðstöðvar þar sem fólkið fær reiðufé og sálfélagslegan stuðning. Einnig eru rekin athvörf fyrir börn og flóttafólkið fær aðstoð svo öryggi þeirra sé tryggt við komuna til Póllands. Sérstök áhersla er lögð á að tryggja aðgengi og öryggi fólks með fötlun.
Olga frá Ódessu
Hjálparstarf kirkjunnar veitir flóttafólki sem flúið hefur frá Úkraínu til Póllands margvíslega aðstoð í samstarfi við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins, LWF / DWS. Starfsfólkið sem veitir mannúðaraðstoðina er flest pólskt en flóttafólk hefur líka verið ráðið til starfa. Olga frá Ódessu í Úkraínu er ein af þeim. Hún segir gott að finna að það sé þörf fyrir hana og að hún sé ekki bara þiggjandi þjónustunnar.
„Ég varð að flýja því lífið var orðið óbærilegt. Ég varð að yfirgefa heimili mitt, vinnuna mína og landið mitt til að tryggja öryggi barna minna,“ segir Olga sem vann í ríkisbanka fyrir innrás Rússlandshers inn í Úkraínu í febrúar síðastliðnum. Olga aðstoðar nú samlanda sína sem hafast að í flóttamannabúðunum í Póllandi eins og hún. Olga segist vera í góðri stöðu til að veita þeim aðstoð því hún skilji vel aðstæður þeirra og þarfir.
Léttir og gleði
Allan Calma er samhæfingarstjóri mannúðaraðstoðar Lútherska heimssambandsins en í aðstoðinni felst meðal annars að fólk fær reiðufé til að kaupa sér helstu nauðsynjar. Níu af hverjum tíu sem starfa í miðstöðinni þar sem flóttafólkið fær reiðufé er flóttafólk sjálft.
„Það lá beint við að ráða flóttafólk í verkefnið sem krefst mikilla samskipta og upplýsingastreymis. Við sjáum líka að fólkinu léttir þegar það kemur eftir aðstoð og því er svarað á eigin tungumáli, þá ríkir hér gleði,“ segir Alan og bætir við að það sé mjög mikilvægt fyrir fólk á flótta að eiga þess kost að vinna fyrir sér, mikil sáluhjálp felist í því.
Frá því að Rússlandsher réðst inn í Úkraínu undir lok febrúar á þessu ár hafa milljónir íbúa neyðst til að flýja landið eða eru á vergangi innan Úkraínu. Flóttafólkið er flest konur, börn, eldra fólk og fatlað en karlmenn eru skyldaðir í herinn.
Hér má finna upplýsingar um mannúðarstarf og þróunarsamvinnuverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar.
Gjöf sem gefur aftur og aftur er tilvalin jólagjöf – laumaðu geit í pakkann!