Samstarfssamningur Íslands og Malaví var endurnýjaður á tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum ríkjanna í Lilongve, höfuðborg Malaví, í byrjun vikunnar. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir átti þá tvíhliða fund með Nancy Tembo utanríkisráðherra Malaví þar sem samstarfssamningurinn var formlega endurnýjaður.

Heimsljós – upplýsingaveita utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál fjallar ítarlega um heimsókn Þórdísar Kolbrúnar til landsins en hún er í fyrstu vinnuheimsókn sinni til samstarfsríkis í þróunarsamvinnu. Þar dvelur hún til  þess að kynnast aðstæðum í Malaví og sjá árangur verkefna sem njóta stuðnings íslenskra stjórnvalda. Hún heimsækir m.a. samstarfshéruð Íslands, Mangochi og Nhkotakota.

Elsta samstarfsríki Íslands

Heimsljós segir frá því að Malaví er elsta samstarfsríki Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og upphaf samstarfsins má rekja allt aftur til ársins 1989. Ísland hefur lengst af stutt byggðaþróunarverkefni í Mangochi héraði og frá árinu 2012 í beinu samstarfi við héraðsstjórvöld. Verkefnin hafa einkum snúið að félagslegum innviðum á sviði vatns- og hreinlætismála, heilsu og menntunar, auk verkefna um kynjajafnrétti og valdeflingu ungmenna. Verið er að skoða hvernig leggja megi ríkari áherslu á loftslags- og umhverfismál á næstu árum því afleiðingar loftslagsbreytinga ógna efnahagslegum framförum í landinu og stefna fæðuöryggi  í hættu.

Ísland starfar einnig með stofnunum Sameinuðu þjóðanna í Malaví og innlendum frjálsum félagasamtökum. Enn fremur hafa á annað hundrað sérfræðingar frá Malaví stundað nám á Íslandi við GRÓ skólana, Jafnréttisskólann, Landgræðsluskólann, Sjávarútvegsskólann og Jarðhitaskólann.

Hjálparstarf kirkjunnar í Malaví

Nýlega undirritaði Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra rammasamninga við Hjálparstarf kirkjunnar um stuðning ráðuneytisins við verkefni á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Samningarnir eru í gildi til loka árs 2024. Samkvæmt samningunum leggur utanríkisráðuneytið til framlag sem nemur stórum hluta af kostnaði við skilgreind mannúðar- og þróunarverkefni. Á grundvelli þessara samninga undirbýr Hjálparstarf kirkjunnar nýtt þróunarsamvinnuverkefni í Malaví en starfssaga Hjálparstarfsins teygir sig all langt aftur.

Á árunum 2005 til 2014 studdi Hjálparstarfið verkefni Evangelical Lutheran Development Service (ELDS) í Malaví sem snérist um vatnsöflun og betra lífsviðurværi fyrir um 900 fjölskyldur sjálfsþurftarbænda í 37 þorpum í Chikwawa héraði. Markmiðið með verkefninu var að auka aðgengi að hreinu vatni með því grafa brunna og kenna fólki að nýta vatn til að tryggja betur fæðuöryggi. Eins snéri verkefnið að því að byggja kamra og handþvottaaðstöðu og fræða um nauðsyn hreinlætis. Trjám var plantað og námskeið voru haldin um umhverfisvernd og sjálfbærni. Þá var jarðrækt þróuð með nýjum korntegundum og skepnuhald styrkt með því að bændur fengu geitur og hænur til að bæta lífsafkomu sína.

Chikwawa hérað

Nýtt verkefni Hjálparstarfsins, sem byggir á rammasamningum stofnunarinnar og ráðuneytisins, er nú í undirbúningi. Ef allt gengur fram eins og áætlanir gera ráð fyrir þá ber Hjálparstarfið niður á sama starfssvæði og áður var nefnt – í Chikwawa héraði.

Markmið verkefnisins, ef allt gengur eftir, er að aðstoða tæplega 42.000 manns á 9.500 heimilum við að auka viðnámsþrótt samfélagsins gegn öfgum í veðri af völdum loftslagsbreytinga og tryggja lífsviðurværi og fæðuöryggi fólks eins vel og mögulegt er. Þar er ekki síst horft til þess að grípa til varna þar sem veðuröfgar ganga harkalega á ræktarland, bæði vegna flóða og þurrka.

Hér má finna upplýsingar um mannúðarstarf og þróunarsamvinnuverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar.

Gjöf sem gefur aftur og aftur er tilvalin jólagjöf – laumaðu geit í pakkann!

Styrkja