Hjálparstarf kirkjunnar hefur nú fengið styrk frá utanríkisráðuneytinu til að veita mannúðaraðstoð í Tigrayfylki í norðanverðri Eþíópíu. Þar hafa átök geisað frá því síðla árs í fyrra og mikil neyð ríkir á svæðinu. Íbúar hafa hrakist á flótta vegna átakanna og talið er að tæp milljón manna þurfi á mannúðaraðstoð að halda. Einnig hafa ásakanir um mannréttindabrot og brot á mannúðarlögum gerst háværari með hverjum deginum. Hjálparstarf kirkjunnar sendir rúmlega tuttugu og eina milljón króna til mannúðaraðstoðar á svæðinu með frábærum stuðningi frá ráðuneytinu, eða 20 milljónum króna.
Hjálparstarf Lúterska heimssambandsins (Lutheran World Federation / World Service) er framkvæmdaraðili á vettvangi og vinnur náið með stjórnvöldum og öðrum mannúðarsamtökum til að tryggja dreifingu hjálpargagna. Konur og börn yngri en fimm ára sem hafa flúið heimkynni eru í miklum meira hluta þeirra sem nú hafast við í yfirfullum bráðabirgðabúðum og óttast hjálparsamtök mikinn matarskort á svæðinu og þörfin fyrir aðstoð er brýn.
Hjálparstarfið á vettvangi snýst um að vernda líf og lífsafkomu fólks, bæta fæðuöryggi með því að útvega korn og verkfæri til landbúnaðar, úthluta búfé, tryggja fólki húsaskjól, og veita beinan óskilyrtan fjárstuðning. Einnig er unnið að því að bæta aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu, tryggja fræðslu um útbreiðslu COVID-19 ásamt því að dreifa einstaklingsbundnum sóttvarnarbúnaði, svo eitthvað sé nefnt. Kórónuveirufaraldurinn torveldar allt hjálparstarf en starfsfólk Lútherska heimssambandsins leggur ríka áherslu á að útvega fólkinu sóttvarnarbúnað og fræða um forvarnir.
Við erum afar þakklát fyrir stuðning ráðuneytisins sem gerir okkur kleift að bregðast skjótt við með samtökum sem gjörþekkja staðhætti.