Fjáröflun Hjálparstarfs kirkjunnar undir slagorðinu Ekkert barn útundan er nú lokið en alls söfnuðust 10,8 milljónir króna til verkefna í þágu barnafjölskyldna sem búa við fátækt. Eitt meginmarkmiða Hjálparstarfs kirkjunnar er að börn einangrist ekki félagslega vegna bágs efnahags fjölskyldunnar og þakkar Hjálparstarfið landsmönnum fyrir frábæran stuðning við starfið!
Í upphafi skólaárs leituðu foreldrar 120 skólabarna aðstoðar hjá Hjálparstarfinu um vetrarfatnað, skólatöskur og annað sem börnin vanhagaði um í upphafi vetrar. Hjálparstarfið aðstoðar auk þess börn sem búa við fátækt svo þau geti tekið fullan þátt í íþrótta- og frístundastarfi með jafnöldrum sínum. Frá upphafi skólaárs hafa styrkir verið veittir til íþróttaiðkunar og frístundastarfs á þriðja tugs barna en foreldrar sem búa við kröpp kjör geta leitað til Hjálparstarfsins vegna þessa árið um kring.
Við höldum áfram að aðstoða fólk í félagslegri neyð en umsóknum frá fjölskyldum í fjárhagslegum erfiðleikum fjölgaði um 40% á tímabilinu mars – september 2020 miðað við sama tímabil árið 2019. Á sex mánaða tímabili leituðu þannig 1204 fjölskyldur efnislegrar aðstoðar hjá Hjálparstarfi kirkjunnar miðað við 859 árið 2019.