Mercy Kwagala er nítján ára gömul stúlka sem vinnur sem ljósmyndari á Janetex Photo Studio í Kampala, höfuðborg Úganda. Félagsráðgjafar samtakanna UYDEL, samstarfsaðila Hjálparstarfsins, fengu ábendingu um að Mercy þyrfti aðstoð og buðu henni að koma til starfa í smiðju samtakanna í borginni. Það boð þáði Mercy og skráði sig á námskeið í smiðju sem samtökin reka í fátækrahverfinu Banda í janúar 2022.
Mercy, sem þá var 17 ára, þurfti mjög á því að halda að brjótast út úr þeim aðstæðum sem hún var þá komin í. Hún fékk persónulega ráðgjöf frá félagsráðgjöfum auk náms og þjálfunar í klæðskurði, þar sem hún hafði áhuga á því að vinna við eitthvað tengt útliti og tísku. Því fékk hún einnig að starfa í jafningjafræðslu í smiðjunni á sama tíma og hún sótti námskeið í viðskiptafræði.
Grunnurinn lagður
Að námi loknu fékk hún starf í ritfangaverslun í Kampala en þar var henni einnig falið að taka passamyndir fyrir þá viðskiptavini verslunarinnar sem um slíkt báðu. Þar lærði hún grunninn í ljósmyndun og myndvinnslu. Þessi starfsreynsla hefur komið sér vel því hún fékk betur launað starf á fyrrnefndri ljósmyndastofu, hvar starfsmenn Hjálparstarfsins hittu hana í heimsókn til Úganda í febrúar 2024. Hún segir að launin dugi henni til þess að kaupa sjálf allar helstu nauðsynjar en um leið getur hún stutt við foreldra sína og systkini.
„Ég er fædd og uppalin í Kampala. Ég ólst upp hjá mömmu en pabbi var ekki hjá okkur. Ég vil ekki tala mikið um það en ég á fimm systkini,“ segir Mercy sem flosnaði ung upp úr skóla. Það er á henni að skilja að samband hennar við móður sína sé jafnframt erfitt. Móðir hennar er strangtrúuð; predikari sem stórlega mislíkaði hvernig Mercy lifði lífi sínu og dreymdi um leiklistarnám, sem var á skjön við lífsýn móður hennar.
Hún segir að vinur hennar hafi sagt henni frá UYDEL sem breytti öllu til batnaðar í hennar lífi.
„Fyrst þegar ég kom í UYDEL þá þorði ég ekki að svara spurningum félagsráðgjafanna. En bara nokkrum mánuðum seinna var ég beðin um að annast jafningjafræðslu í UYDEL,“ segir Mercy brosandi og bætir við að henni hafi gengið mjög vel að læra með aðstoð starfsfólksins í smiðjunum.
„Það var mjög gaman í smiðjunni. Ég eignaðist nýja vini og kynntist fullt af góðu fólki. Það var mjög gaman. Mörg þeirra eru enn góðir vinir mínir en ég hef misst sambandið við sum þeirra,“ segir Mercy sem viðurkennir að hún væri ekki sjálfstæð og að vinna fyrir sér ef hún hefði ekki farið í smiðjuna hjá UYDEL.
„Það væri ómögulegt. Eftir smiðjuna hafði ég sjálfstraust til að fara í atvinnuviðtal, en áður hafði ég ekkert sjálfstraust. Þau komu með mér og sögðu þeim að ég væri snjöll og dugleg. Þau hjálpuðu mér mikið,“ segir hún og bætir við að henni dreymir um að eignast sína eigin ljósmyndastofu.
„Ég er að safna peningum til þess að eignast mitt eigið fyrirtæki. Stofan mín á að vera nógu stór til þess að ég geti boðið vinum mínum að vinna með mér; þeim sem ekki eru í vinnu. Þó mig langi til þess þá get ég samt ekki haft alla vini mína í vinnu því þau verða að hafa þjálfun eins og ég. Þetta snýst allt um að hafa reynslu og þjálfun. Það er alveg sama við hvað þú ætlar að starfa – án reynslu og þjálfunar þá hefur þú úr litlu að velja,“ segir hún og kveður brosandi.

Mercy sýnir Bjarna Gíslasyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins, verkefni dagsins í Janetex Photo Studio í Kampala.