Bedra Hassen er þrítug sex barna móðir sem hefur búið í sveitarfélaginu Deneba í Kebribeyah héraði í Eþíópíu allt sitt líf. Eiginmaður hennar, Hussein Ali, er bóndi sem gerir sitt ítrasta til að yrkja jörðina við afleitar aðstæður. Bedra og eiginmaður hennar hafa um langt árabil glímt við erfiðleika og fátækt. Svo slæm hefur staðan orðið að þau hafa efast um að þau geti séð fyrir börnunum sínum, tvíburadætrum og fjórum sonum.
Stærsta verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í þróunarsamvinnu er með þessum sárafátæku sjálfsþurftarbændum í Eþíópíu en þar ógna þurrkar og óstöðugt veðurfar fæðuöryggi fólksins. Einn þáttur þessa verkefnis eru sparnaðar- og lánahópar fyrir konur. Þær fá fræðslu um hvernig best sé farið af stað með eigin rekstur. Eftir fræðslu og þjálfun hefja margar kvennanna að reka litla búð, stunda sauð- og geitfjárhald hænsnarækt og rækta grænmeti. Um samstarfsverkefni Hjálparstarfsins og Lútherska heimssambandsins (LWF) er að ræða með styrk íslenska utanríkisráðuneytisins.

Bedra og einn af fjórum sonum. Þau eru hér fyrir utan heimili fjölskyldunnar sem er hefðbundið hús í sveitum Eþíópíu, samansett úr trégrind og klæðabútum stórum sem smáum.
Þraukaði og uppskar ríkulega
Bedra var valin til þátttöku í verkefninu ásamt hópi kvenna í Deneba. Eftir þjálfun og fræðslu um viðskipti fékk hver þeirra litla upphæð að láni til eins árs sem er hugsuð til að stofna lítið fyrirtæki.
„Ég keypti fjórar geitur fyrir peninginn – allt huðnur. En þurrkarnir voru svo miklir að þrjár þeirra drápust og ég stóð uppi með aðeins eina sem ég íhugaði að selja svo ég gæti keypt mat og fleiri nauðsynjar. Svo slæm var staðan orðin,“ segir Bedra og bætir við. „En ég ákvað að þrauka og reyna að halda lífinu í geitinni minni. Svo kom rigningin eftir margra ára þurrka sem var gott fyrir okkur öll – og ekki síst dýrin.“ Nú hefur geitin hennar Bedru gefið henni og fjölskyldunni fimm kiðlinga sem gjörbreytti stöðu þeirra til hins betra.
„Ég seldi tvær geitur og fyrir peninginn stofnaði ég litla verslun. Þar sel ég símakort og svaladrykki. Ég er líka búin að endurgreiða lánið mitt að fullu.“
Bedra segir jafnframt að geitamjólkin sé himnasending enda séu krakkarnir hennar sólgin í þennan næringarríka drykk. En stærsta breytingin er kannski sú að öll börnin sex, strákar sem stelpur, ganga nú í skóla sem lengi vel var útilokað og aðeins draumur einn.
„Ég ætla að halda áfram að byggja upp búðina mína og halda eins margar geitur og ég get. Ef það tekst þá þurfum ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni,“ segir Bedra.
Ein saga af mörgum
Saga Bedru og fjölskyldu hennar er aðeins ein af mörgum slíkum af góðum árangri þróunarsamvinnuverkefnis Hjálparstarfsins í Eþíópíu. Verkþátturinn um valdeflingu kvenna virðist afar vel heppnaður. Starfsfólk og þátttakendur verkefnisins hafa lýst þeirri upplifun aftur og aftur í samtölum við starfsfólk Hjálparstarfsins.Konurnar sem taka þátt í verkefninu gera mikið úr litlu. Þær greiða lánin til baka í lang flestum tilfellum og njóta ávaxtanna sjálfar. Karlarnir eru ánægðir með að konurnar fái þetta tækifæri og virðast ekki skipta sér mikið af því hvernig lánin eru nýtt né fara þeir fram á að fá afraksturinn til sín.

Bedra ásamt tvíburadætrum sínum og barnungum syni. Það eru geitaræktin sem hefur breytt lífi þeirra allra.