Sóknarnefnd Hallgrímskirkju ákvað á jólafundi sínum í ár að veita 6.5 milljónum króna úr Líknarsjóði kirkjunnar. Styrknum var veitt til fjögurra samtaka; Hjálparstarfs kirkjunnar, Kristniboðssambands Íslands, til Rótarinnar vegna Konukots og til Kaffistofu Samhjálpar.
Við fjölskyldumessu í Hallgrímskirkju í gær tóku við staðfestingu á framlagi þau Bjarni Gíslason fyrir Hjálparstarf kirkjunnar, Sigríður Schram fyrir Kristniboðssambandið, Kristín Pálsdóttir fyrir Konukot og Rótina, og Linda Magnúsdóttir fyrir Kaffistofu Samhjálpar.
Í tilkynningu Hallgrímssafnaðar segir að „Hjálparstarfið sinnir margskonar hjálpar- og mannúðarstarfi í nafni Þjóðkirkjunnar bæði hér heima og erlendis. Kristniboðssambandið boðar kristna trú meðal annars í Eþíópíu og Keníu og stundar margskonar fræðslu og uppbyggingarstarf. Konukot starfar á næstu grösum við Hallgrímskirkju og er opinn faðmur fyrir heimilislausar konur og kynsegin fólk, á vegum samtakanna Rótarinnar. Í Kaffistofu Samhjálpar geta allir sem eru á hrakningi gengið að mat og hlýju hvern dag. Miðvikudagsmessuhópurinn í Hallgrímskirkju hefur starfað í meira en tvo áratugi og lengst af safnað fé til styrktar Kaffistofunni.“
Í afhendingarskjali Hallgrímssóknar segir. „Kæru vinir og samstarfsfólk. Með bæn um blessun yfir starf Hjálparstarfs kirkjunnar viljum við færa ykkur framlag Hallgrímssafnaðar til starfs ykkar og verkefna.“
Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins, segir að rausnarlegur stuðningur Hallgrímssóknar til fjölda ára sé ómetanlegur og styrki stoðir starfsins svo um munar.
Hjálparstarf kirkjunnar þakkar þennan frábæra stuðning.