Borgarastríðið í Súdan hefur nú geysað í vel á annað ár. Margir tala um „gleymda stríðið“ en staða almennra borgara í Súdan er skelfileg og versnar með hverjum deginum.
Hörð átök milli súdanska stjórnarhersins (SAF) og sveita uppreisnarhersins Rapid Support Forces (RSF) hafa nú varað í Súdan í á annað ár. Átökin eiga rætur sínar að rekja til valdabaráttu tveggja hershöfðingja sem stóðu sameiginlega að valdaráni í landinu árið 2019 þegar fyrrverandi forseta landsins var steypt af stóli en hann hafði þá setið í embætti í tæpa þrjá áratugi. Herstjórn hershöfðingjanna tveggja tók við en spenna þeirra á milli hafði farið stigvaxandi þar sem þeir deildu um innleiðingu nýs stjórnarfars í landinu og aðlögun RSF sveitanna að stjórnarhernum.
Frá því átökin hófust þann 15. apríl 2023 hafa þúsundir fallið í átökunum og tugir þúsunda hafa særst. Nú þegar átökin hafa staðið svo lengi sem raun ber vitni er sú staða komin upp að hungursneyð geisar í landinu þar sem milljónir búa við alvarlegan næringarskort og fjölmargir deyja hungurdauða dag hvern. Þess utan hafa milljónir íbúa landsins neyðst til að yfirgefa heimkynni sín og eru á vergangi innan Súdan en 2,1 milljón manns hafa flúið til Mið-Afríkulýðveldisins, Chad, Egyptalands, Suður-Súdan og Eþíópíu. Allt þetta fólk er í brýnni þörf fyrir aðstoð hvort sem það hefst að hjá ættingjum innanlands eða í yfirfullum flóttamannabúðum í nágrannaríkjum.
Hjálparstarf kirkjunnar í Noregi, NCA, biðlaði í lok ágúst 2024 til systurstofnana í Alþjóðlegu Hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance um fjárframlag til þess að geta sett aukinn kraft í mannúðaraðstoð í Súdan en helmingur þjóðarinnar, þá um 25 milljónir íbúa, bjó við skelfilegar aðstæður.
Frá 1. september 2024 til 31. ágúst 2025 áætlar NCA að vinna með Caritas Internationalis og innlendum hjálparsamtökum í Súdan að því að veita mannúðaraðstoð til tæplega 100.000 einstaklinga, jafnt fólks á flótta undan stríðandi fylklingum sem íbúa í samfélögum sem taka á móti flóttafólkinu. Fólkíð mun fá reiðufé fyrir nauðþurftum og því útvegað vatn og hreinlætisaðstaða. Þá verður sérstaklega hugað að því að konur og stúlkur verði ekki fyrir kynbundnu ofbeldi og sálrænn stuðningur veittur börnum og fullorðnum.
NCA bað systurstofnanir í ACT Alliance um 2,2 milljónir evra til að veita aðstoðina. Hjálparstarf kirkjunnar á Íslandi lagði til 104.000 evrur (16 milljónir íslenskra króna) til mannúðaraðstoðarinnar eða um 5% af umbeðinni fjárhæð. Fimmtán milljónir komu frá utanríkisráðuneytinu vegna verkefnisins en Hjálparstarfið lagði til um eina milljón króna af söfnunarfé.