Þurrkar og óáreiðanlegt veðurfar gerir búskap í sveitum Eþíópíu afar erfiðan. Dæmin sanna þó að bæta má hag fátækra bænda með minniháttar inngripi og stuðningi.
Stærsta verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í þróunarsamvinnu er með sárafátækum sjálfsþurftarbændum í Sómalífylki í Eþíópíu en landið er í 176 sæti af 193 á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna (2022). Meginmarkmið verkefnisins eru að bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni, að fólkið geti aukið fæðuöryggi sitt með skilvirkum aðferðum í landbúnaði og umhverfisvernd og að styrkja stöðu kvenna, samfélaginu öllu til farsældar.
Í Sómalífylki ógna þurrkar og óstöðugt veðurfar fæðuöryggi fólksins. Þegar lítið sem ekkert rignir á hefðbundnum regntíma verður uppskeran rýr og fátæktin sífellt sárari. Íbúar fylkisins hafa lifibrauð af kameldýra- og nautgriparækt, sauðfjár- og geitarækt en í sífellt meira mæli af korn- og grænmetisræktun. Samfélagið hefur mjög takmarkað aðgengi að vatni, rafmagni, mörkuðum og lánsfé enda er fæðuöryggi mjög lítið og á þurrkatímum er fólkið háð mataraðstoð stjórnvalda og hjálparsamtaka.
Búskapurinn þrautin þyngri
Þúsundir fjölskyldna hafa fengið aðstoð með einum eða öðrum hætti frá því að verkefnið var sett á laggirnar. Á meðal þeirra sem hafa fengið stuðning eru Elias Abdi Bere, 26 ára gamall bóndi, og eiginkona hans Elhan Mohammud sem búa í sveitarfélaginu Bersile í Kebribeyah héraði í Sómalífylki. Þau eiga fjórar dætur á aldrinum eins til sex ára og byggja lífsafkomu sína á uppskeru af tveggja hektara landskika sem þau eiga. Í gegnum árin hefur það reynst þeim þrautin þyngri; aðallega vegna þess hversu óáreiðanlegt veðurfar í landinu er orðið og rakið er til hnattrænna loftslagsbreytinga.
„Veðurfarið undanfarin ár er síbreytilegt og það er orðið erfitt eða nær ómögulegt að vita hvenær best er að hefja sáningu – ólíkt því sem áður var,“ segir Elias en regntíminn, sem fyrr á árum var stöðugur, hefst nú sum ár síðar en áður var eða hefst á hefðbundnum tíma og lýkur mun fyrr. Þetta hefur þær afleiðingar í för með sér að uppskeran er rýrari en annars væri eða bregst alveg, að sögn bóndans unga.
„Uppskerutíminn hefur reglulega gefið svo lítið af sér að það dugir ekki til að brauðfæða fjölskylduna. Því hef ég þurft að leita aðstoðar skyldmenna til að komast af.“
Eftirtektarverður árangur
Þegar verkefni Hjálparstarfsins hófst var Elias og fjölskylda hans á meðal þeirra sem valin voru til að taka þátt í þeim hluta verkefnisins sem lýtur að bættum ræktunaraðferðum. Auk fræðslu um hvernig mögulegt væri að aðlaga búskapinn að breyttu veðurfari fékk hann úthlutað þurrkþolnum fræum til að rækta maís, lauk, papriku og vatnsmelónur. Árangurinn var eftirtektarverður.
Árið 2023 sáði fjölskyldan maísfræum. Uppskeran dugði til að þau gátu selt hluta hennar og áttu töluvert eftir til eigin neyslu auk þess sem hluti uppskerunnar nýttist til sáningar. Afraksturinn af sölu afurðanna dugði einnig til leigu á dráttarvél svo mögulegt var að plægja allan landskikann á stuttum tíma. Svo var maís-, lauk-, papriku-, og vatnsmelónufræum sáð í þessa tvo hektara lands og þegar samstarfsmenn Hjálparstarfsins hittu Elias var akur hans í blóma og útlitið gott með uppskeru ársins 2024.
„Veðrið lofar góðu og útlit fyrir að við fáum nægt regn. Því munum við fá ríflega uppskeru af korni, grænmeti og ávöxtum. Við getum selt mikið af uppskerunni á markaði og ég vænti þess að fá um 130.000 eþíópsk birr fyrir. Það er svo rífleg innkoma að hún mun breyta lífi okkar til allrar framtíðar,“ sagði Elias sem bætir því við að nú á fjölskyldan tvær mjólkandi kýr og geitur. Staða fjölskyldunnar er því gjörbreytt. Ef fram fer sem horfir þá getur þessi sex manna fjölskylda uppfyllt allar sínar þarfir án aðstoðar frá öðrum. Þessi staða opnar auk þess dyr sem áður voru þeim lokaðar, ekki síst með tilliti til möguleika stúlknanna fjögurra sem geta nú gengið menntaveginn sem lengi vel var fjarlægur draumur.
„Nú er allt betra en það var áður,“ segir Elias.
Mögulegt með dyggum stuðningi
Verkefni Hjálparstarfsins í Sómalífylki hefur verið unnið í samstarfi við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins (LWF DWS) í Eþíópíu með dyggum stuðningi frá styrktarsamfélagi Hjálparstarfsins á Íslandi og utanríkisráðuneytinu frá árinu 2008. Yfirstandandi verkefnisfasi hófst í janúar 2021 og lýkur nú í desember. Þá tekur við nýtt verkefni á líkum grunni í Awbarre héraði í Sómalífylki í Eþíópíu sem nú er í undirbúningsferli og spannar að óbreyttu árin 2025 til 2028.