Nýtt Fréttabréf Hjálparstarfsins er komið út. Blaðið er efnismikið en í blaðinu segjum við frá starfinu hér heima og á verkefnasvæðum erlendis.
Í blaðinu er meðal annars fjallað sérstaklega um að fjölmargar barnafjölskyldur leita til Hjálparstarfsins fyrir hver jól. Ástæðan er einföld og ávallt sú sama. Þau sem minnst hafa handa á milli þurfa aðstoð við að útvega börnum sínum það sem öll börn þurfa um jólin. Aldrei er þörfin eins áberandi og um jólin; margir eru í mjög erfiðri stöðu og því ekkert sem bendir til annars en að margir leiti stuðnings fyrir komandi jól líkt og undanfarin ár.
Útgáfa fréttabréfs Hjálparstarfs kirkjunnar hófst árið 1975 og hefur staðið nær óslitið síðan. Nú fimmtíu árum frá því að fyrsta fréttabréfið leit dagsins ljós hefur útgáfan í heild sinni verið birt á timarit.is – stafrænu bókasafni á vegum Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.
Þurrkar og óáreiðanlegt veðurfar gerir búskap í sveitum Eþíópíu afar erfiðan. Dæmin sanna þó að bæta má hag fátækra bænda með minniháttar inngripi og stuðningi. Við segjum frá því hvernig fjölskylda snéri vörn í sókn.
Börn og ungmenni sem alast upp í sárafátækt í Kampala, höfuðborg Úganda, eiga flest fáa kosti. Mörg eru misnotuð frá unga aldri. Þau sem fá tækifæri nýta það oftar en ekki til hins ítrasta og draumurinn er að eignast eigin fyrirtæki, eins og hún Bridget sem hefur opnað sína eigin hárgreiðslustofu.
Borgarastríðið í Súdan hefur nú geysað í vel á annað ár. Margir tala um „gleymda stríðið“ en staða almennra borgara í Súdan er skelfileg og versnar með hverjum deginum. Hjálparstarf kirkjunnar styður við verkefni í samstarfi við systursamtök á Norðurlöndunum.
Ef þú vilt lesa um innlent sem erlent starf Hjálparstarfsins má finna nýja fréttabréfið hér.