Hjálparstarf kirkjunnar er í september næstkomandi að fara af stað með námskeiðið Stattu með sjálfri þér – Virkni til farsældar. Um tveggja ára námskeið er að ræða og er þetta í fimmta sinn sem Hjálparstarfið bíður fram þennan möguleika en námskeiðið er ætlað konum á örorku sem eru með börn á framfæri. Þátttaka miðast við u.þ.b. 15 konur.

Kynningarfundur um verkefnið verður í dag þriðjudaginn 27. ágúst kl. 13:00 í safnaðarheimili Grensáskirkju.

Á kynningarfundinn munu til dæmis þátttakendur úr fyrrum námskeiðum koma og segja frá sinni reynslu af því að taka þátt.

Unnið er á einstaklingsmiðaðan hátt í gegnum viðtöl, fræðslu, hópavinnu og út frá markmiðum hvers og eins, áhugasviðum og styrkleikum.

Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins verða þátttakendum innan handar, hjálpa þeim að setja sér markmið, koma auga á lausnir og veita stuðning við úrlausn mála.

Markmið námskeiðsins er þríþætt:

  1. Að bæta sjálfsmynd og trú á eigin getu
  2. Að efla félagslegt tengslanet og koma í veg fyrir félagslega einangrun
  3. Að eflast í foreldrahlutverkinu

Ef nánari upplýsinga er óskað er velkomið að hafa samband við okkur á skrifstofu Hjálparstarfsins í síma 528-4400. Við tökum glaðar á móti fyrirspurnum og umræðum um námskeiðið. Við munum hafa samband áður en kynningarfundur er haldinn en það skal tekið fram að engin skuldbinding fylgir því að mæta á kynningarfundinn.

Hlökkum til að sjá ykkur!

 

Styrkja