Fátt finnst okkur skemmtilegra hérna í Hjálparstarfinu en þegar við fáum góða gesti. Prjónandi konur í Lágafellssókn falla svo sannarlega í þann flokk.
Fulltrúi hópsins, hún Helga Guðjónsdóttir, kom við hér í vikunni með fangið fullt af prjónlesi en á hverju ári fyrir jól koma konur frá hópnum til okkar með eitthvað fallegt í jólapakkana sem streyma frá Hjálparstarfinu fyrir jólin. Það eru börn sem búa við fátækt sem njóta góðs af vinnu hópsins og fatnaðurinn kemur sér svo sannarlega vel um þessar mundir.
Konur í Prjónakaffi Lágafellssóknar hittast aðra hvora viku og prjóna peysur, húfur, sokka og vettlinga. Þetta hefur hópurinn, sem telur hátt um 25 konur, gert í mörg undanfarin ár og Hjálparstarfið hefur notið þess ríkulega. Þær prjóna fyrir góð málefni; vilja láta gott af sér leiða og njóta samvista um leið.
Ef þú vilt lesa um innlent sem erlent starf Hjálparstarfsins má finna nýja fréttabréfið hér.
Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?