Hjálparstarf kirkjunnar býr yfir ómetanlegum mannauði og það á ekki síst við um framlag sjálfboðaliða. Vaskur hópur kvenna hefur um langt árabil veitt stuðning sinn í verki. Það átti lengi vel ekki síst við um að taka á móti og flokka fatnað sem Hjálparstarfinu barst víða að, en um langt árabil var tekið á móti öllum fatnaði en ekki aðeins vel með förnum útifatnaði eins og nú er. Þá röðuðu þær í hillur og settu á slár, sem var ærið verk og allt eftir kúnstarinnar reglum. Fötunum var svo miðlað áfram til fólks sem til Hjálparstarfsins leitaði, en með einstaka undantekningum þó.
Hjá Hjálparstarfinu eins og víðar eru álagstímar, ekki síst á haustin þegar skólastarf er að hefjast en helst í aðdraganda jóla. Þá er liðveisla sjálfboðaliða forsenda þess að mögulegt sé að leysa úr öllum þeim verkefnum sem til falla. Mitt í öllum látunum væri nærtækt að áætla að lítill tími gefist til annars en hálfgerðrar færibandavinnu við móttöku gjafa frá styrktarsamfélagi Hjálparstarfsins, enda eru þær ótölulega margar. Hins vegar er ekki svo. Vega þarf og meta hvert framlag, hvern grip og hverja flík og skilgreina hverjum gjöfin hentar. Allt til að auðvelda úthlutun þegar að því kemur.
Við þessa vinnu er lífsreynsla og þekking sjálfboðaliðanna dýrmæt, sem í gegnum árin hefur skilað skemmtilegri hliðarafurð. Nefnilega söfnun þjóðgripa sem hafa menningarsögulegt gildi.
Upp úr svörtum poka
„Fötin komu til okkar í alls konar pokum, mest megnis svörtum plastpokum, og einstaka sinnum töskum og kössum. Upp úr þessum umbúðum komu aðallega föt, sum mjög falleg, en ýmislegt annað slæðist með og stundum mjög áhugaverðir munir. Samstarfskonur mínar hafa verið duglegar að vekja athygli á hlutum sem synd væri að glötuðust. Án þeirra hefði enginn af þeim munum varðveist,“ segir Elsa Sveinsdóttir, ein sjálfboðaliða Hjálparstarfsins.
Elsa, sem hefur starfað sem sjálfboðaliði hjá Hjálparstarfinu allt frá árinu 2011, vill ekki gera mikið úr sínum þætti við varðveislu safngripanna. Það hafi verið næmt auga samstarfskvenna hennar sem mestu skipti. En Elsa tók það hins vegar upp hjá sjálfri sér að halda skrá yfir þá gripi sem þóttu nógu áhugaverðir fyrir söfn að veita viðtöku, og því er þessi litla en mikilvæga hliðarsaga varðveitt.
Aðspurð hvernig það kom til að upplýsingar um flíkurnar voru bornar undir safnverði svarar Elsa.
„Það var nú engin hugsjón á bak við þetta. Fyrsti gripurinn, koddaver úr pokaefni, kom óvænt upp í hendurnar á mér. Ég sá safngildið í því þar sem ég mundi eftir svipuðum rúmfötum, aðallega lökum, sem ekki sjást lengur. Þessi rúmföt voru heimasaumuð úr pokaefni, sem kostaði ekki neitt, og voru hluti af lífi almennings þegar flest var nýtt sem hægt var. Þegar fyrsta ferðin á safn heppnaðist svona vel og muninum tekið með opnum örmum fórum við að velta því meira fyrir okkur hvort sjaldgæfir hlutir sem okkur bárust, og okkur fannst að ætti að varðveita, gætu vakið áhuga safnanna. Okkur til mikillar ánægju varð það oft á tíðum raunin. Þrjú söfn hafa tekið við munum frá okkur. Þau eru Þjóðminjasafnið, Borgarsögusafn Reykjavíkur og Myntsafn Seðlabankans.“
Hlýhugur og velvild
Elsa er um margt dæmigerð fyrir sjálfboðaliða Hjálparstarfsins, hjartahlý kona sem finnur starfsorku sinni farveg við að hlúa að þeim sem glíma við erfiðar aðstæður. Elsa er Skaftfellingur, fædd og uppalin á Fossi á Síðu. Hún gekk menntaveginn og fór til náms í Englandi þar sem hún ílengdist og vann við rannsóknarstörf í lífefnafræði í rúmlega 30 ár.
„Ég flutti heim 2007. Eftir að heim var komið fór ég fljótlega að vinna sem sjálfboðaliði, fyrst hjá Rauða krossinum en síðan hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. Þar hef ég mætt einu sinni í viku lengst af en sjaldnar nýlega. Þar er alltaf gott að koma og þar finnum við sjálfboðaliðarnir fyrir hlýhug og velvild af hálfu starfsfólksins og þakklæti í okkar garð fyrir unnin störf,“ segir Elsa að lokum.
Koddaverið – 2013
Fyrsti gripurinn var koddaver saumað úr sykur- eða hveitipoka eins og tíðkaðist í kringum og fyrir 1950. Rannveig vakti athygli mína á því þegar það var nýkomið upp úr fatapoka sem gefinn hafði verið. Við sem mundum eftir þessum vinnubrögðum virtum koddaverið fyrir okkur af miklum áhuga. Það var vel saumað, með lokuðum saumi og bendlum. Það eina sem var óvenjulegt við það var að það hafði ekki verið sett í klór eða þvegið á þann hátt að prentstafirnir á pokaefninu hyrfu. Ljósrauðbrúnir stafir sáust greinilega. Það lék því enginn vafi á uppruna efnisins. Auk þess var efnið drapplitað en ekki drifhvítt eins og sæmdi myndarlegum húsmæðrum.
Mér flaug í hug að Þjóðminjasafnið hefði áhuga á þessu og hringdi. Mér var bent á Freyju H. Ómarsdóttur á Munasafninu í Kópavogi. Hún vildi endilega fá gripinn og sagði mér að Þjóðminjasafnið væri nýbúið að vera með fræðslukynningu á saumaskap úr pokaefni en hafði því miður engan grip til að sýna. Koddaverið yrði því kærkominn safngripur.
Stagbætta föðurlandið – maí 2014
Enn einu sinni kom staðfesting á handlagni og nýtni íslenskra kvenna upp úr svörtum plastpoka. Gert er hér ráð fyrir að eiginkona eða móðir eigandans hafi bætt flíkina frekar en eigandinn sjálfur. Brókin er vélprjónuð og því frá 20. öldinni en hún er listilega bætt og það rækilega að minna er sums staðar eftir af upphaflega prjónlesinu en bótunum. Bæturnar voru sennilega af öðru föðurlandi en lykkjaðar á svo vel að samskeytin sjást varla. Þær sjást samt greinilega því að blæbrigðamunur er á litunum á prjónlesinu. Freyja hjá Þjóðminjasafninu var mjög hrifin og tók föðurlandið strax.
Lepparnir – nóvember 2015
Ekki man ég alltaf hver fann hvað en Lára eða Dúfa komu sennilega auga á þessa leppa. Þarna var um auðugan garð að gresja – eða hvað? Ekki sér maður oft svona marga leppa í einu en litskrúðugir voru þeir ekki eða sparilegir og greinilega notaðir. Í tölvupósti með afsökunartóni var Freyja hjá Þjóðminjasafninu spurð hvort áhugi væri fyrir þessum notuðu leppum. Hún hélt nú það. Þar á bæ er nóg til af fullkomnum sparileppum en að fá eitthvað hversdagslegt og notað var fengur.
Trölli og félagar – sparibaukar Útvegsbankans – nóvember 2019
Útvegsbankinn var með sparibaukinn Trölla og kynnti hann 1970 í Æskunni fyrir börnunum. Hann væri frá Finnlandi og ætlaði að kenna þeim að spara fyrir því sem hugurinn girntist, s.s. gítar, plötuspilara, segulband eða jafnvel heila Hondu (hér hlýtur að vera átt við mótorhjól frekar en bíl)! Trölli ráðlagði þeim líka að sleppa því að reykja og greiða í staðinn andvirði eins sígarettupakka á dag í hann, þ.e. sparibaukinn – þá væri hægt að safna fyrir Hondunni á tveimur árum.
Tweed jakkafötin frá Gefjun – mars 2016
Þau voru búin að hanga í einhvern tíma á jakkafataslánni. Enginn greinilega hafði nógu mikinn áhuga á því að taka þau þótt ókeypis væru. Það var því kominn tími til að fjarlægja þau og mynda pláss fyrir æskilegri föt. Með hiki var þeim veifað yfir svarta pokanum sem innihélt föt sem við gátum ekki nýtt og senda átti til útlanda. Þá heyrðist sagt með afrískum hreim: “This is a nice suit.” Þar með var jakkafötunum bjargað!
Í framhaldi af þessu heyrði ég sagt að eldra fólk myndi vel eftir jakkafötunum frá Gefjun. Það fékkst víst lítið annað þá, fyrir norðan alla vegana.
Skýringartextar eru allir fengnir úr munaskrá Elsu Sveinsdóttur.