Á hverju hausti leita fjölmargar barnafjölskyldur til Hjálparstarfsins þegar skólastarf er við það að hefjast. Ástæðan er einföld og ávallt sú sama. Þau sem minnst hafa handa á milli þurfa aðstoð við að útvega börnum sínum það sem öll börn þurfa þegar skólar hefjast; góða skólatösku, fatnað, ritföng og fleira. Í fyrrahaust leituðu um 160 fjölskyldur til Hjálparstarfsins við upphaf skólastarfs og börnin sem fengu aðstoð voru rúmlega 300 talsins.  

Frá því að heimsfaraldurinn sleppti klónni af þjóðinni hefur þróun efnahagsmála haft sérstaklega neikvæð áhrif á afkomu þeirra sem fyrir stóðu höllum fæti í samfélaginu. Umsóknum til Hjálparstarfsins frá fjölskyldum í fjárhagslegum erfiðleikum fjölgar og oftar en ekki er byrði húsnæðiskostnaðar um að kenna, sem er reyndar gömul saga og ný. Slík staða bitnar á þeim sem síst skyldi en börn eru stór hluti þeirra sem njóta góðs af þeirri aðstoð sem Hjálparstarfið getur veitt.

Bjallan hringir inn

Skólastarf er að hefjast og nú í ágúst leggur Hjálparstarfið því sérstaka áherslu á að aðstoða efnalitla foreldra í upphafi skólaárs til þess að koma í veg fyrir félagslega einangrun barna. Foreldrar fá þá aðstoð svo börnin geti stundað íþróttir og tómstundastarf með jafnöldrum sínum – óháð efnahag. Börnin fá vetrarfatnað, íþróttafatnað og -töskur, ritföng til að nota heima við, nestisbox og skólatösku.

Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi, umsjón með innanlandsstarfi Hjálparstarfs kirkjunnar

Vilborg Oddsdóttir

Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi sem hefur umsjón með innanlandsstarfi Hjálparstarfsins, útskýrir að Hjálparstarfið hafi um langt árabil aðstoðað foreldra sem eiga börn á þessum tímamótum sem upphaf skólagöngu er. Sérstök haustsöfnun í tilefni þess að skólastarf er að hefjast hafi komið til árið 2017, en fram til þess tíma hafi Hjálparstarfið notið stuðnings fjölda aðila við að létta undir með foreldrum skólabarna og ekki síst megi nefna Velferðarsjóð barna í því samhengi.

Vilborg segir að mikilvægt skref hafi náðst þegar sveitarfélögin samþykktu að bjóða öllum nemendum gjaldfrjáls skólagögn. Það breyti myndinni þó ekki nema að takmörkuðu leyti fyrir þá sem verst standa, þó aðgerðin hafi vissulega verið til bóta.

Yfir 300 börn fengu aðstoð í fyrra

Vilborg rifjar upp að til Hjálparstarfsins leituðu um 160 fjölskyldur með yfir 300 börn þegar grunnskólinn var að byrja í fyrrahaust. Aldrei hafi jafn margir sótt um aðstoð til Hjálparstarfsins vegna skólabyrjunar en til samanburðar sótti 81 fjölskylda yfir 200 barna um sambærilega aðstoð haustið á undan. Vilborg tekur fram að aðstæður í fyrra hafi verið sérstakar vegna stríðsins sem þá var nýhafið í Úkraínu og flóttamenn þaðan hafi þurft stuðning. Eins sé skráning Hjálparstarfsins nákvæmari en áður var.

„Það er hópur einstaklinga sem á ekki fyrir dóti eins og skólatösku og útifötum og öðru slíku sem þarf þegar skólinn er að byrja. Við finnum að bæði þetta og aðsókn eftir aðstoð við tómstundir hefur verið að aukast. Matur kostar mun meira og þá á fólk minna fyrir öllu öðru,“ sagði Vilborg í viðtali við RÚV að þessu tilefni í fyrra. Nú segir Vilborg að erfitt sé að meta hvort enn frekari aukning verði á umsóknum þetta haustið. Ekkert bendi þó til annars enda sé ár liðið þar sem efnahagsástandið hafi síst lagast og húsnæðiskostnaður heimilanna aukist mjög. Draga megi þá ályktun að fólk hafi því almennt minna á milli handanna en þá og mörg fjölskyldan kvíði haustinu.

Oft þarf lítið til

„Okkar markmið er að börnin einangrist ekki félagslega vegna bágs efnahags fjölskyldunnar,“ segir Vilborg en þekkt er að börn sem búa við fátækt eru útsett fyrir félagslegri einangrun sem getur valdið þeim sársauka og haft langvarandi félagslegar og heilsufarslegar afleiðingar.

Öll börn þurfa að hafa vissa hluti hjá sér þegar skólastarf hefst. Afar mikilvægt er að öll börn standi jafnfætis jafnöldrum sínum á þessum mikilvæga tíma í lífi okkar allra.

„Ef þú ert ekki með skólatöskuna og það sem þú þarft í skólann getur það valdið barni hugarangri. Það er afar mikilvægt fyrir barn að geta mætt í skólann jafnfætis skólasystkinum sínum. Svona smáatriði geta endað með því að vera kornið sem fyllir mælinn og niðurstaðan er skólaforðun – að barnið vill ekki fara í skólann og foreldrar þess láta undan þeim þrýstingi. Þetta getur síðar valdið barninu miklum vandræðum og það flosnar upp úr skólastarfi og á aldrei afturkvæmt. Niðurstaðan er félagsleg einangrun og oft vítahringur fátæktar,“ segir Vilborg og bætir við að foreldrar geti komið til Hjálparstarfsins og fengið aðstoð með skólatösku við upphaf skólagöngu, aftur þegar barn byrjar í fjórða bekk grunnskóla og síðan í upphafi unglingadeildar. Með öðrum orðum er mögulegt að fá töskur sem henta hverju aldursskeiði grunnskólagöngunnar.

„Stundum þarf svo lítið til. Áföll sem í margra augum eru smávægileg geta haft alvarlegar afleiðingar á þessum viðkvæma tíma í lífi hvers barns. Þess vegna er afar mikilvægt að lágmarka hættuna á því að börnin sjái skólann í neikvæðu ljósi í upphafi skólagöngu. Það getur haft mikil áhrif síðar á ævinni,“ segir Vilborg.

Samhliða aðstoð við barnafjölskyldur hefjum við á hverju hausti söfnun undir slagorðinu Ekkert barn útundan! og höfum sent 2.900 króna valgreiðslu í heimabanka landsmanna.

 

Styrkja