„Það er þekkt að fjölskyldur einstæðra foreldra búa við auknar líkur á fátækt í samanburði við fjölskyldur með tvær fyrirvinnur, einfaldlega vegna þess að það er erfitt að komast af án tveggja fyrirvinna í íslensku þjóðfélagi.“
Þetta er meðal þess sem segir í skýrslunni Fátækt og áætlaður samfélagslegur kostnaður, sem kom út á vordögum. Tilefni hennar var skýrslubeiðni til forsætisráðherra sem samþykkt var á þingi síðastliðið haust.
9.400 börn
Tölur um barnafátækt einblína á lögheimili barna. Skilnaðarbörn eiga hins vegar foreldra með mismunandi lögheimili. Fyrir vikið er gert ráð fyrir því að barnafátækt sé vanmetin ef lögheimilsforeldrið býr ekki við fátækt en umgengnisforeldrið gerir það. Þetta er skýrt tekið fram í skýrslunni og sagt í samhengi að fátækt umgengnisforeldris hefur að öllum líkindum áhrif á möguleika þess til að vera virkur þátttakandi í lífi barnsins og haft áhrif á gæði sambands foreldris og barns.
Niðurstaða skýrsluhöfunda, þegar horft er eingöngu til stöðu á lögheimili barna, er að 11,6% barna séu undir lágtekjumörkum á lögheimilum sínum. Samkvæmt því eru þau 9.400 talsins.
Þá segir: „Aðeins 1,1% barna er í þeirri stöðu að vera skilnaðarbörn og eiga báða foreldra undir lágtekjumörkum. Þessi hópur er að líkindum sá verst setti. Aftur á móti er lágtekjuhlutfall barna 14% ef tekið er tillit til bæði fjárhags á lögheimili og fjárhags á lögheimili og fjárhags umgengnisforeldris.“
Í stuttu máli er niðurstaða höfunda því að töluvert fleiri börn búi við fátækt en opinberar tölur gera ráð fyrir. Því er talið mikilvægt „að greina betur áhrif skilnaða á lífskjör barna og foreldra þeirra í framtíðinni til að finna leiðir til að verja skilnaðarbörn fyrir fátækt á heimilum beggja foreldra.“
Fjölmennur hópur
Í starfi Hjálparstarfsins má sjá eina birtingarmynd barnafátæktar og samhengis við stöðu foreldra þeirra. Á starfsárinu 2021 – 2022 voru flestir þeirra sem leituðu stuðnings á aldrinum 30 – 39 ára og voru konur 70,3% umsækjenda. Flestir, eða 43% umsækjenda, voru einstæðir lögheimilisforeldrar. Er það niðurstaða félagsráðgjafa Hjálparstarfsins að svo virðist sem að einstæðir lögheimilisforeldrar og barnafjölskyldur á aldrinum 30 – 39 ára séu fjölmenn í þeim hópi íslensks samfélags sem verst er statt.
Þessi punktur sem settur er fram í skýrslunni snertir því á grundvallarsýn Hjálparstarfsins þegar aðstoð er veitt en þá er oft sérstaklega horft til þess að um barnafjölskyldu sé að ræða. Þá er megin markmiðið að grunnþörfum fólks sé mætt, að fjárhagslegir erfiðleikar ógni ekki heilsu fólks og takmarki ekki möguleika barna og unglinga til að taka þátt í samfélaginu.
Vítahringur fátæktar
Fátækt í æsku getur haft langvarandi áhrif á einstaklinga. Þetta birtist félagsráðgjöfum Hjálparstarfsins aftur og aftur í þeirra daglegu störfum. Á sama tíma er hlutfall barna á Íslandi sem búa á heimilum undir fátæktarmörkum 11,6%, eins og áður sagði en er þá ekki gert ráð fyrir ósýnilega hópnum sem á umgengnisforeldri sem býr við kröpp kjör. Börnin sem búa á heimilum undir fátæktarmörkum eru því um 9.400 börn, að lágmarki.
Í því samhengi má nefna að gera má ráð fyrir að 5-20% af þeim börnum sem búa við fátækt í dag muni glíma við sama vanda sem fullorðnir einstaklingar, eða á bilinu 470 til 1.600 einstaklingar.
Hér má lesa allt um innanlandsstarf Hjálparstarfs kirkjunnar.
Vilt þú styrkja hjálparstarfið? Með því að gerast Hjálparliði hjálpar þú fólki sem býr við fátækt á Íslandi og í fátækustu samfélögum heims.