Hitabeltisstormurinn Freddy hefur undanfarna daga lamið á suðurhluta Malaví og skilur eftir sig slóð eyðileggingar og manntjóns. Miklar rigningar og rok hafa stórskemmt innviði víða um landið; vegir eru sundurgrafnir, byggingar hafa látið undan veðurhamnum sem og raflínur.  

Fjölmörg héruð hafa orðið fyrir barðinu á veðrinu eins og Læknar án landamæra greina frá í fréttatilkynningu. Þetta á við héruðin Blantyre, Chiradzulu, Mulanje, Mwanza, Neno, Nsanje, Thyolo, Phalombe og Zomba auk Chikwawa-héraðs sem er starfssvæði Hjálparstarfsins sem í upphafi árs hóf nýtt verkefni í landinu í krafti rammasamnings Hjálparstarfsins við utanríkisráðuneytið.

Nefnd héruð hafa orðið fyrir svo miklum áhrifum vegna veðursins að forseti landsins hefur lýst yfir neyðarástandi. Víða í landinu eru opinberar byggingar stórskemmdar; skólar, sjúkrahús sem og samgöngumannvirki.

„Ástandið er afar slæmt. Fjölmargir hafa látið lífið eða eru slasaðir. Margra er saknað og tala látinna mun hækka mikið á næstu dögum,“ segir Guilherme Botelho, verkefnastjóri Lækna án landamæra (Médecins Sans Frontières (MSF) í Blantyre, en þar í borg eru sjúkrahús að fyllast af fólki sem á um sárt að binda.

Tala látinna liggur ekki fyrir en þegar þetta er skrifað hefur verið staðfest að á þriðja hundrað hafi látið lífið í Malaví og Mósambík en fólk hefur einnig farist af völdum veðursins í Madagaskar og Simbabve.

Þúsundir orðið illa úti

Kristín Ólafsdóttir, verkefnastýra erlendra verkefna hjá Hjálparstarfinu, náði í morgun sambandi við samstarfsaðila Hjálparstarfsins í Malaví. Fékk hún þær upplýsingar að í héraðinu hafi á fimmta þúsund heimili orðið svo illa fyrir barðinu á veðrinu að íbúar eru í miklum vanda. Í bænum TA Makhwira, sem starfsmenn Hjálparstarfsins heimsóttu í síðasta mánuði, hafa heimili 730 fjölskyldna orðið fyrir skemmdum eða hús eru óíbúðarhæf.

Má nefna að þungamiðja verkefnis Hjálparstarfsins í héraðinu er að auka viðnámsþrótt samfélagsins gegn öfgum í veðri af völdum loftslagsbreytinga og tryggja lífsviðurværi og fæðuöryggi fólks eins vel og mögulegt er. Þar er ekki síst horft til þess að grípa til varna þar sem veðuröfgar ganga harkalega á ræktarland, bæði vegna flóða og þurrka.

Kólerufaraldur

Í frétt Heimsljóss – upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál, segir að Freddy er þegar orðinn langlífasti hitabeltisstormur sögunnar á suðurhveli jarðar.

„Hann hefur verið á ferð um Indlandshaf í rúman mánuð og stöðugt gengið í endurnýjun lífdaga allt frá því hann myndaðist fyrst undan strönd Norður-Ástralíu 6. febrúar. Hvað eftir annað hefur Freddy gengið á land á Madagaskar og Mósambík, á mismunandi stöðum, og hvarvetna skilið eftir sig slóð eyðileggingar, auk manntjóns.“

Í fréttinni er rætt við Ingu Dóru Pétursdóttur, forstöðukonu íslenska sendiráðsins í höfuðborginni Lilongve í Malaví. Hún segir að innviðaskemmdir í landinu séu miklar og veruleg hætta á að yfirstandandi kólerufaraldur fari aftur algerlega úr böndunum.

Styrkja