Eitt ár er í dag liðið síðan Rússar réðust inn í Úkraínu með þeim skelfilegu afleiðingum að tugþúsundir hafa látið lífið og milljónir hafa þurft að flýja heimili sín. Hundruð þúsunda íbúa eru föst á átakasvæðum; fólk sem hefur særst, aldrað fólk, fólk með fötlun, barnshafandi konur sem bjuggu við erfið skilyrði fyrir og börn. Þetta fólk, sem og úkraínska þjóðin öll, upplifir óbærilegar hörmungar.

Systurstofnanir Hjálparstarfs kirkjunnar í Alþjóðlegu Hjálparstarfi kirkna – ACT Alliance hafa starfað í Úkraínu og í nágrannalöndum um langt skeið. Um leið og innrásin var gerð hófu þær að veita fólkinu aðstoð, bæði í landinu sjálfu og flóttafólki í nágrannalöndunum í samstarfi við stofnanir Sameinuðu þjóðanna og önnur hjálparsamtök á svæðinu.

Hjálparstarf kirkjunnar á Íslandi hóf tafarlaust neyðarsöfnun í kjölfar innrásar Rússlandshers í Úkraínu og hefur til þessa sent 56,6 milljónir króna til neyðaraðstoðar í landinu og í nágrannaríkjum. Rúmlega 26 milljóna króna framlag hefur borist frá styrktarsamfélagi Hjálparstarfsins; fyrirtækjum og einstaklingum og 30 milljóna króna styrkur hefur borist frá utanríkisráðuneytinu og runnu framlögin til verkefna systurstofnana í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance.

Aðstoðin felst fyrst og fremst í því að fólk fær húsaskjól, mat, vatn og hreinlætisaðstöðu en einnig er rík áhersla lögð á sálrænan stuðning og á að tryggja aðgengi fyrir fatlaða að þeirri þjónustu sem veitt er. Bráðabirgðalæknisþjónustu var komið upp og tryggt að fólkið fái lífsnauðsynleg lyf.

Systurstofnanir Hjálparstarfsins innan Alþjóðlegs Hjálparstarfs kirkna – ACT Alliance hafa til þessa safnað tæplega 23 milljónum Bandaríkjadala, eða 3,4 milljörðum króna, sem hafa runnið til aðstoðar þriggja milljóna Úkraínumanna í heimalandi þeirra eða nágrannaríkjum þar sem flóttafólk hefst við.

Neyðarsöfnun Hjálparstarfsins fyrir Úkraínu er ennþá í gangi – sjá hér.

 

Styrkja