Vinir Hjálparstarfs kirkjunnar koma saman á ný í safnaðarheimili Grensáskirkju mánudaginn 27. febrúar kl. 12:00 og snæða saman.
Þetta er í fjórða sinn sem hópurinn kemur saman en öll sem áhuga hafa á starfi Hjálparstarfs kirkjunnar og vilja leggja starfinu lið eru hjartanlega velkomin.
Skráning
Tilkynna þarf þátttöku á netfangið help@help.is eða í síma 528 4400 fyrir kl. 9:00 fimmtudaginn 23. febrúar.
Verð fyrir máltíðina er 2.000 kr. og mun afraksturinn renna til Hjálparstarfs kirkjunnar.
Í eldhúsinu að þessu sinni verður Kristín Hraundal nýr kirkjuvörður Grensáskirkju, sem mun annast um eldamennskuna.
Skjólið, fyrir heimilislausar konur
Yfir hádegisverðinum mun Rósa Björg Brynjarsdóttir umsjónarkona Skjólsins segja stuttlega frá starfinu í Skjólinu.
En um Skjólið segir á heimasíðu Hjálparstarfs kirkjunnar:
„Skjólið er opið hús fyrir konur sem glíma við heimilisleysi, búa við óöruggar aðstæður eða eru nýkomnar í búsetuúrræði eftir heimilisleysi. Skjólinu er ætlað að vera öruggur samastaður sem konurnar geta sótt að deginum til. Unnið er eftir skaðaminnkandi hugmyndafræði og er starf Skjólsins þróað og mótað með þeim konum sem það sækja.“
Áhugavert verður að heyra frá starfsemi Skjólsins og gefst viðstöddum færi á að spyrja umsjónarkonu Skjólsins út í starfsemina.
Styrkja baklandið
Hugmyndin að baki samverunum er að fólk geti hist stutt í hádeginu, borðað saman og rætt málefni Hjálparstarfsins og hvernig hver og einn og hópurinn í heild sinni geti stutt við starfið.
Hugmyndin kviknaði hjá séra Bjarna Þór Bjarnasyni og með honum í undirbúningshópnum eru Halldór Kristinn Pedersen og Erik Pálsson, formaður sóknarnefndar Grensássóknar, auk starfsfólks Hjálparstarfs kirkjunnar og presta og starfsfólks Grensáskirkju.
Hjartanlega velkomin
Öll sem hafa áhuga á starfi Hjálparstarfs kirkjunnar og vilja leggja starfinu lið eru hjartanlega velkomin.