Neyðarsöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar vegna jarðskjálftanna í Tyrklandi og Sýrlandi gengur vel. Þegar hefur safnast á fimmtu milljón króna en Hjálparstarfið mun leggja til að lágmarki ellefu milljónir króna sem systurstofnanir Hjálparstarfsins innan Alþjóðlegs hjálparstarfs kirkna – ACT Alliance – munu ráðstafa þar sem neyðin er sárust.
Flestar fréttir sem berast frá hamfarasvæðunum eru í eina átt og virðast þó aðeins greina frá upphafinu af einhverju enn þá verra. Ekki er lengur talað um tugþúsundir manna sem þurfa að takast á við nær ómögulegar aðstæður heldur neyð hundruð þúsunda manna eða milljóna. Tala þeirra sem fórust er komin yfir fjórða tug þúsunda í löndunum tveimur. Talsmenn Sameinuðu þjóðanna telja að tala látinna eigi eftir að verða miklum mun hærri. Vonir um að finna fleiri eftirlifendur í rústum bygginga, nú á tíunda degi frá því jarðskjálftarnir riðu yfir, eru orðnar óraunhæfar. Enn berast þó sögur af hálfgerðum kraftaverkum þar sem fólki er bjargað undan hrundum byggingum.
Strax eftir að fyrsti og stærsti jarðskjálftinn reið yfir í landamærahéruðum Tyrklands og Sýrlands hófu systursamtök Hjálparstarfs kirkjunnar á staðnum mat á því hvernig bregðast ætti við með sem skilvirkustum hætti. Hjálpargögnum er dreift; mat, lyfjum, teppum og hlýjum klæðnaði en upplýsingar frá hamfarasvæðunum staðfesta að þörfin er margföld miðað við þá stöðu sem viðbragðsaðilar héldu í upphafi að til þyrfti.
Eftirlifendur náttúruhamfaranna í Tyrklandi og Sýrlandi hafast við á götum úti eða í neyðarskýlum. Þeir eru allslausir að kalla og háðir neyðaraðstoð. Næstu vikurnar þarf að hlúa að slösuðum, skjóta skjólshúsi yfir þá sem hafa misst heimili sín og miðla hjálpargögnum til þeirra sem hafa misst aleigu sína.
Verkefnin eru óteljandi og af margvíslegum toga. Vegna hamfaranna er ljóst að alþjóðasamfélagið þarf að standa þétt við bak Tyrkja og Sýrlendinga næstu mánuðina og jafnvel árin.
Framlag Hjálparstarfs kirkjunnar til brýnnar aðstoðar við fórnarlömb jarðskjálftanna er að meðtöldum veglegum styrk frá utanríkisráðuneytinu.
—
Hægt er að leggja neyðarsöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar lið með eftirfarandi hætti:
Hægt er að gefa stakt framlag hér.
Leggja inn á söfnunarreikning númer 0334-26-886; kennitala: 450670-0499
Hringja í söfnunarsímann 907 2003 (2500 krónur)